„Skattalækkanir á Íslandi á árunum 1991-2007 hafa verið feikilega árangursríkar. Tekjuskattar á einstaklinga og fyrirtæki voru lækkaðir, en á sama tíma jukust skatttekjur, sem sýnir enn og aftur að lítil sneið af stórri köku geti verið stærri en stór sneið af lítilli köku.“ |
Nú má kannski deila um hversu skynsamlegur vöxtur tekna og gjalda hins opinbera hefur verið. En um hitt er tæplega hægt að deila, að skattalækkanirnar hafi verið vítamínsprauta fyrir íslensk fyrirtæki, hafi ríkulega aukið svigrúm þeirra til vaxtar og átt stóran þátt í aukningu kaupmáttar almennings.
Í bók RSE er fjöldi áhugaverðra greina. Nóbelsverðlaunahafinn Edward Prescott og Johanna Wallenius, setja fram þá kenningu að vinnuframlag fólks ráðist í miklum mæli af skattlagningu vinnutekna. Ragnar Árnason prófessor fjallar um dreifingu hreinnar skattbyrði og þar með hverjir það séu sem raunverulega greiði skatta. Fredrik Bergström forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar í Svíþjóð, sýnir fram á að Evrópuþjóðir hafi dregist aftur úr Bandaríkjunum vegna hárra skatta og mikilla ríkisumsvifa. Pascal Salin prófessor við Parísarháskóla Dauphine rökstyður mikilvægi skattasamkeppni milli ríkja og andmælir sjónarmiðum OECD og ESB um skaðlega skattasamkeppni. Pierre Bessard forstöðumaður Constant de Rebecque-stofnunarinnar í Sviss lýsir skattasamkeppni milli svissneskra kantóna. Brendan Walsh prófessor emeritus fjallar um áhrif skattalækkana á „írska efnahagsundrið.“ Daniel Mitchell sérfræðingur Cato stofnunarinnar í skattamálum greinir áhrif skattalækkana á Íslandi og Hannes H Gissurarson prófessor færir fyrir því rök að á Íslandi hafi þróast nokkurs konar „velferðarkapítalismi“, sem hvorki geti talist skandinavískur né engilsaxneskur.
Eins og sjá má kennir ýmissa grasa í bókinni, sem er hvalreki á fjörur áhugamanna um skatta- og velferðarmál. Cutting Taxes to Increase Prosperity fæst að sjálfsögðu í Bóksölu Andríkis.