Fimmtudagur 14. febrúar 2008

45. tbl. 12. árg.
Government’s view of the economy could be summed up in a few short phrases: If it moves, tax it. If it keeps moving, regulate it. And if it stops moving, subsidize it.
– Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna.

S

Ráða harðsnúnir þrýstihópar mestu um hvaða eldsneyti er framleitt undir „grænum“ formerkjum?

tjórnmála- og embættismenn víða um heima grípa um þessar mundir til alls kyns ráða – reglugerða, skatta og styrkja – til að sporna gegn auknum gróðurhúsaáhrifunum. Þrýstihópar hraða sér á vettvang.

Í Bandaríkjunum voru maísbændur fljótir að átta sig og nú ýta stjórnvöld þar vestra undir etanólvinnslu úr maís með reglum, styrkjum og skattlagningu. Etanólið er nýtt til að drýgja bensín hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Og það eru ekki aðeins bandarískir bændur sem kunna ýmislegt fyrir sér í sérhagsmunagæslunni. Í Evrópu gengu repjubændur á lagið og olían sem kreist er úr afurð þeirra er nú notuð til drýginda á Dieselbíla. Ekki segja íslenskum kartöflubændum frá þessum árangri kollega þeirra út í heimi. Ríkið hefur þegar ákveðið að styrkja „Ár kartöflunnar 2008“. Kartöfluspíri á bílinn hljómar alltof grænt til að stjórnmálamenn standist þá freistingu.

Hér á Íslandi hefur það helst verið vetnislobbíið sem náð hefur árangri að þessu leyti. Mörg hundruð milljónir hafa streymt úr vösum skattgreiðenda í félagsfræðitilraunir með vetnisstrætisvagna á götum Reykjavíkur á liðnum árum. Vetnismenn nota sömu rök og aðrir þrýstihópar í þessum efnum: „Notum umhverfisvæna innlenda orkugjafa.“

Í ENN í fyrradag var sagt frá nýrri rannsókn sem birtist í tímaritinu Science. Samkvæmt rannsókninni er það mjög hæpið að lífeldsneyti eins og það sem unnið er úr repjuolíu og maís dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það sé hæpið að ryðja skóga og leggja nýtt land undir akra í þeim tilgangi að rækta plöntur sem vinna má eldsneyti úr. Skýrsluhöfundar draga einnig í efa að það sé skynsamlegt að hætta matvælaframleiðslu og skipta yfir í eldsneytisræktun því það þýði einfaldlega að leggja þurfi annað land undir matvælaframleiðsluna.