M estu efnahagsframfarir undanfarinna ára á Íslandi má rekja til þess að ríkið hætti að gera eitthvað en ekki til þess að ríkið gerði eitthvað. Ríkið hætti að reka banka, símafélag, skipafélag, ferðaskrifstofu, fiskiðju og fleira. Ríkið dró úr skattheimtu af fyrirtækjum, eignum og launatekjum. Framfarir í mannréttindum má með svipuðum hætti rekja til þess að ríkinu hafa verið settar skorður með lögum, mikilvægum réttarbótum hrint í framkvæmd og síðast en ekki síst að völd og áhrif stjórnmálamanna eru miklu minni en þau voru. Þar sem dregið hefur úr fyrirferð ríkisins, þar hafa framfarirnar orðið.
„Og það má ekki gleyma því að með því að setja stjórnmálaflokkana í fóstur til ríkisins þá voru þeir ekki gerðir óháðir, þeir voru bara gerðir óháðir öllum nema fjölmiðlum, ósvífnustu hagsmunahópunum og ríkinu, sjálfu meginviðfangsefni stjórnmálanna.“ |
Þetta er umhugsanarefni nú rétt eftir kosningar í ljósi þess að fyrirferð ríkisins í stjórnmálunum sjálfum hefur snaraukist. Stjórnmálaflokkarnir eru nú í raun ríkisreknir en þurftu áður að mestu að reiða sig á frjáls framlög fylgismanna sinna. Á árinu horfa upp á ríkisstarfsmenn í gervi stjórnmálamanna, í framboði fyrir ríkisrekna stjórnmálaflokka mæta í ríkisútvarps- eða ríkissjónvarpsþætti sem stjórnað er af ríkisstarfsmönnum. Þarna kemur orðið ríkis fimm sinnum of oft fyrir.
Það mætti vel draga úr fyrirferð ríkisins í stjórnmálunum með því til dæmis að banna stjórnmálaflokkum að þiggja opinbera styrki, setja hámark á starfstíma þingsins þannig að það sæti ekki lengur en þrjár vikur á ári og setja í stjórnarskrá að það væri bannað að setja lög nema einhver önnur lög væru um leið afnumin og afnema þá að sjálfsögðu eitthvað ákvæðið úr stjórnarskránni í leiðinni.
Með kosningum er verið að velja fólk til vinnu til löggjafar og framkvæmda. Það má kannski færa fyrir því einhver rök að þau sem til þessara starfa eru ráðin eigi að fá laun frá ríkinu en það er ofrausn að stjórnmálaflokkarnir, þeir sem eru að bjóða fólkið fram til vinnu eigi líka að vera á launum hjá ríkinu. Og það má ekki gleyma því að með því að setja stjórnmálaflokkana í fóstur til ríkisins þá voru þeir ekki gerðir óháðir, þeir voru bara gerðir óháðir öllum nema fjölmiðlum, ósvífnustu hagsmunahópunum og ríkinu, sjálfu meginviðfangsefni stjórnmálanna. Við hverjar kosningar er endurráðið í störf stjórnmálamanna, sitjandi stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar þeirra ættu ekki að hafa neinn forgang með því að vera styrktir af ríkinu í sín atvinnuviðtöl. Þegar kemur að kosningum eiga allir stjórnmálamenn að sjá fram á sama atvinnuleysið. Auk þessa hlýtur ósanngirnin sem felst í því að kjósendur og aðrir eru með skattheimtu neyddir til að styrkja alla stjórnmálaflokka að blasa við öllu heiðarlegu fólki.
Tvisvar á á hverju ári heyrist í fjölmiðlum að Alþingi hafi afgreitt flest mál á lokasprettinum, á síðustu vikunni fyrir þinglok. Á þessu er hneykslast og hneykslunin ekki minnst hjá þeim sem töluðu mest og eyddu bæði annarra manna tíma og fé í ræðustól Alþingis. Löggjöfin fer samkvæmt þessu fram á tveimur vikum á ári, einni á miðjum vetri og einni á vori og því gæti það vel komist af með þrjár vikur á ári. En auðvitað gæti Alþingi ekki sinnt öllum störfum sínum ef það sæti aðeins þrjár vikur á ári og einmitt þess vegna væri þetta alveg ágætis fyrirkomulag. Mörg störf Alþingis eru betur óunnin og ef starfstíminn væri aðeins þrjár vikur þá væri annarsvegar von um minni afköst og hinsvegar von um að venjulegt fólk gæti sinnt þingstörfum í sumarfleyfum sínum en flestir eiga orðið þriggja vikna samfelld sumarleyfi í það minnsta. Í viðtali við tímaritið Reason í nóvember síðastliðnum tók Milton Friedman dæmi um óheppileg áhrif stjórnvalda á efnahagslífið.
Bandarískt efnahagslíf getur vaxið mjög mikið svo lengi sem stjórnvöld hafa ekki puttana í því. Því miður þá hafa aðgerðir stjórnvalda sterka tilhneigingu til að vera skaðlegar fremur en hjálplegar. Til dæmis eru Sarbanes-Oxley lögin (lög sem sett voru í kjölfar gjaldþrots Enron til varnar bókhaldssvikum) afar óheppileg. Þau segja við sérhvern athafnamann í Ameríku: ekki taka áhættu. Þetta er ekki það sem við viljum. Hlutverk athafnamannsins er að taka áhættu og ef hann er neyddur til að forðast áhættu og eyða fé sínu í endurskoðendur frekar en vörur þá vex hvorki efnahagurinn né dafnar. |
Það er ástæða til að gefa þessum orðum gaum. Ný lög eru ekki svarið við öllum vandamálum og lög hafa alls ekki alltaf tilætluð áhrif. Það væri heppilegt ef á Alþingi væru í það minnsta jafn mörg lög afnumin og sett eru á hverju ári.