A lþýðusamband Íslands segir að sér komi miklar tekjur ríkissjóðs á óvart, en sem kunnugt er hyggst ríkisstjórnin bæta þrjátíuþúsund milljónum króna í ríkiskassann umfram útgjöld á næsta ári. En Alþýðusambandið kann ráð við þessu.
Hagfræðingur Alþýðusambandsins segir að nú eigi að nota tækifærið og hækka barnabætur og endurbæta vaxtabótakerfið – og samkvæmt skilningi Alþýðusambandsins felast endurbætur kerfisins í því að meiri peningar renni þangað úr ríkiskassanum. Barnabætur séu lægri hér en í einhverjum nágrannalöndum og vaxtabætur hafi ekki elt ýtrustu hækkanir á fasteignamarkaði. Ríkið eigi afgang og þá eigi að nota hann í þetta.
Þetta eru aðeins aðrar áherslur en hjá fréttamönnum ríkisfjölmiðlanna, sem þráspyrja alla tiltæka ráðherra hvort ekki sé rétt að leyfa borgurunum að njóta afgangsins með því að hækka laun ríkisstarfsmanna.. En þó áherslur þessara tveggja þrýstihópa séu ekki þær sömu, þá eru þær í sömu átt: Nú, er afgangur? Þá má auka útgjöldin enn meira!
Alþýðusambandið vill með öðrum orðum auka enn á vasapeningaþjóðfélagið. Skattleggja sem mest og úthluta svo borgurunum einhverju til baka, helst eftir reglum sem Aðilar vinnumarkaðarins setja og stjórnmálamenn staðfesta umhugsunarlaust. Og þróunin er hröð í þá átt. Velferðarkerfið þenst út, fleira og fleira verður nú „ókeypis“. Strætisvagnar í gær, leikskólar í dag, skíðasvæðin á morgun. Niðurgreiðslur aukast, fleiri og fleiri eiga meiri „rétt“ á meiri og meiri aðstoð og allt er þetta gert á kostnað skattgreiðenda. Sveitarfélögin eru velflest komin með útsvarið í hæstu leyfilegu mörk og allra bragða er beitt til að neyða þau fáu sem ekki hafa gert það til að sameinast þeim stóru og illa reknu.
Og ekki má lækka skatta, því skattalækkun er eina mannlega gjörðin sem „eykur þenslu“.
Og svo koma menn eins og Einar Már Jónsson, höfundur hinnar sérkennilegu og hvorki illa skrifuðu né alvitlausu bókar Bréfs til Maríu í sjónvarpsþátt í gærkvöldi og halda langa ræðu um að búið sé að brjóta velferðarkerfin niður og allt sé þar í fjársvelti. Hvernig ætli slíkir menn útskýri Íslandsmetin sem sett eru á hverju ári í ríkisútgjöldum til „velferðarmála“? En það fær fólk aldrei að vita, því þeir eru aldrei spurðir. Mönnum helst einfaldlega uppi að tala og tala um „fjársvelti“ þegar útgjöldin aukast ár frá ári.