Helgarsprokið 11. febrúar 2007

42. tbl. 11. árg.

Þ að er kunnara en frá þurfi að segja að fátt er eins keimlíkt og stefnuskrár stjórnmálaflokka. Alls kyns orðskrúð um félagslegt réttlæti, frelsi, menntun, umhverfi og heilbrigðisþjónustu fyrir alla er meðal þess sem má finna hjá þeim flestum. Nú líður senn að kosningum til alþingis og greinilega kominn nokkur skjálfti í ýmsa stjórnmálamenn. Þeir rembast eins og rjúpan við staurinn að skapa sér sérstöðu og virðist þá litlu skipta fyrir suma hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Eitt er það mál sem nokkrir þingmenn virðast hafa tekið upp á sína arma, enda flestir svokallaðir álitsgjafar sammála um að það verði eitt af aðalmálum kosningabaráttunnar, en það eru Evrópumálin. Það verður að viðurkennast að hinir ýmsu stjórnmálamenn virðast kjósa að hafa það síður en svo á hreinu hvað það er nákvæmlega sem þeir vilja eða meina í þessum mikilvæga málaflokki, enda ekkert skrýtið. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og meðreiðarsveinar hennar virðast vilja taka upp „Evrópuverðlag“ á Íslandi, – hvað sem það nú þýðir. Valgerður Sverrisdóttir hefur líka stigið á stokk og tekið svo djúpt í árinni að það ætti að skoða vandlega þann kost að taka upp evruna sem gjaldmiðil, eða eitthvað í þá áttina. Nú er það auðvitað háttur margra stjórnmálamanna að gefa frekar í skyn en að halda einhverju fram. Í því ljósi er áhugavert að skoða hvað stefnuskrár þeirra flokka, sem þessar ágætu konur tilheyra, hafa að segja um „Evrópumálin“. Það kemur kannski einhverjum á óvart, en í stefnuskrá Samfylkingarinnar stendur eftirfarandi um afstöðu flokksins til Evrópusambandsins:

Breiða samstöðu þarf að skapa meðal þjóðarinnar um samningsmarkmið sem látið verði reyna á í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Niðurstöðurnar verði lagðar undir þjóðaratkvæði.

Svo mörg voru þau orð. Stefnan virðist semsagt vera að skapa samstöðu um samningsmarkmið sem hægt sé að láta reyna á. Hvernig skapa eigi þessa breiðu samstöðu er hins vegar ósagt látið. Ekkert er heldur sagt til um það hvað þessi samningsmarkmið eigi að fela í sér. Svo virðist sem skemmra sé tæpast hægt að ganga fyrir flokk sem gefur sig út fyrir að vera eini alvöru valkostur þeirra sem hugnast það að Ísland gangi í Evrópusambandið. Allt tal um að ekki sé hægt að taka endanlega afstöðu til málsins þar sem óljóst sé hvað úr aðildarviðræðum fengist, eru málalengingar. Sama má til dæmis segja um aðildarviðræður Íslands að NAFTA, rússneska sambandslýðveldinu og svo mætti lengi telja. Annað hvort telja menn þetta vænlegan kost, að gefnum þeim upplýsingum sem menn hafa, – eða ekki. Það sem eftir stendur er að það er fátt í stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum sem fjöldinn allur af stuðningsmönnum annarra flokka gæti ekki skrifað undir. Við þetta bætast auðvitað alls kyns ályktanir flokksfunda, nefnda og álíka fyrirbrigða sem virðast öll endurspegla þessa skoðun. En hvað með Framsókn? Þrátt fyrir að orð utanríkisráðherra séu mjög óljós verður að viðurkennast að það væri stórt skref í átt til austurs að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil Evrópusambandsins, sem vel að merkja er ekki gjaldmiðill allra landa sem eru í Evrópusambandinu. Hvað skyldi nú standa í stefnuskrá Framsóknarflokksins um Evrópumál? Svarið við þeirri spurningu er áhugavert: Ekkert. Hins vegar má finna alls kyns ályktanir flokksþinga og þess háttar en þar segir meðal annars:

Mikilvægt er að íslenska þjóðin sé upplýst um kosti og galla aðildar að EES-samningnum á hverjum tíma. Á vettvangi Framsóknarflokksins skal halda áfram upplýsingaöflun og vinnu við mótun samningsmarkmiða og hugsanlegs undirbúnings aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Niðurstöðu þeirrar vinnu skal bera undir næsta flokksþing – til kynningar. Komi til aðildarviðræðna við ESB skulu niðurstöður slíkra viðræðna bornar undir þjóðaratkvæði.

Ekki verður annað séð en að Framsókn sé á sömu slóðum og Samfylkingin. Stefnan er að skoða málið. Nú ætlar Vefþjóðviljinn ekki að mælast til þess að þessir flokkar breyti stefnu sinni í málinu, – hún er kannski ekki vitlausari en margt annað sem leiðtogar þessara flokka bjóða kjósendum uppá. En eftir stendur að enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi virðist hafa aðild að Evrópusambandinu á stefnuskrá sinni. Enn einu sinni verður því þeim sem er umhugað um að Ísland gangi í Evrópusambandið, að láta önnur mál ráða afstöðu sinni þegar í kjörklefann er komið í vor.