Mánudagur 12. febrúar 2007

43. tbl. 11. árg.

S íðustu daga hafa verið látlausar fréttir og blaðaskrif af því að fyrrverandi stjórnmálamenn, popparar og fleiri séu afar ósáttir við veg sem áformað er að leggja í Mosfellssveit. Myndir hafa verið sýndar af þekktum einstaklingum sem hafa nánast hlekkjað sig við gröfur til að lýsa andstöðu sinni. Svo var boðað til fundar gegn veginum í nafni „Varmársamtakanna” og má telja víst að fundarboðunin, sem fór fram með aðstoð fréttamanna, hafi náð eyrum allra.

Fréttastofa Stöðvar 2 sagði frá fundinum í gær og hófst fréttin á þessum orðum: „Gerð Helgafellsbrautar er orðið mikið hitamál hjá íbúum í Mosfellsbæ og sást það glöggt á opnum fundi Varmársamtakanna í gær.“ Í fréttinni kom einnig fram að um 100 manns hefðu sótt fundinn, en af myndskeiðum þar sem myndavél var rennt yfir salinn var engin leið að sjá að á fundinum hefðu verið nema 50-70 manns að hámarki.

En hvað um það, leyfum fréttastofunni og Varmársamtökunum að njóta vafans og segjum að fundarmenn hafi verið 100. Á kjörskrá í Mosfellssveit í fyrra voru 5.004 og má því draga þá ályktun að í það minnsta 4.900 kjósendur, um 98% kjósenda, telji ekki ástæðu til að leggja mikið á sig til að mótmæla fyrirhugaðri vegalagningu. Í ljósi þessara staðreynda, hvernig getur fréttastofa þá fullyrt að vegalagningin sé orðin „mikið hitamál“ hjá íbúunum. Er nóg að hæfilega orðvar fyrrverandi stjórnmálamaður blóti á opinberum fundi til að málefnið teljist orðið mikið hitamál, sama hversu fáir hafa mætt á fundinn? Er virkilega orðið fréttnæmt að þeir fáu sem mæta á mótmælafundi hafi hátt? Eru fréttamenn þeirrar skoðunar að á fámennum fundum þrýstihópa megi finna út hvort mál eru hitamál eða ekki? Eru þetta sömu fréttamennirnir og ætla að fara verðlauna hverjir aðra fyrir vel unnin verk?

F rá því var greint um helgina að fjandsamleg tilraun bandaríska Nasdaq-verðbréfamarkaðarins til að taka ensku kauphöllina yfir hefði mistekist með því að einungis handhafar 0,41 % hlutafjár í kauphöllinni hefðu fallist á yfirtökutilboðið. Raunar sendi þessi örsmái minnihluti samþykki sitt símleiðis því hann var einmitt staddur á Íslandi um þetta leyti að kjósa Höllu Gunnarsdóttur, þingfréttaritara Morgunblaðsins, sem formann KSÍ.

D att einhverjum í hug að ekki hefði verið fylgst með sovéska sendiráðinu? Hvers konar bavíanar héldu menn að hefðu verið í lögreglunni?