Í
Samfylkingin sendi ákveðnum hópi loforð um 320 þúsund króna skattaleysismörk honum til handa. Aðrir skattgreiðendur hafa ekki fengið upplýsingar um þetta loforð enda eiga þeir að greiða áfram fullan tekjuskatt af öllu umfram 90 þúsund krónur. |
skuldlausu einbýlishúsi búa eldri hjón sem alla tíð greiddu samviskusamlega í lífeyrissjóð af góðum tekjum. Greiðslurnar voru alla tíð undanþegnar tekjuskatti, bæði greiðsla launþegans af launum sínum og hlutur launagreiðandans. Samtals fá þau 600 þúsund krónur á mánuði úr lífeyrissjóði auk greiðslna frá Tryggingastofnun. Af þessum tekjum sínum greiða þau engan tekjuskatt.
Í kjallaranum hjá þeim leigir einstæð móðir með tvö börn. Hún er með 300 þúsund krónur á mánuði með því að vinna flestar helgar. Hún greiðir yfir 70 þúsund krónur í tekjuskatt á mánuði.
Hvaða heimi er eiginlega verið að lýsa hérna? Jú, draumaveröld Samfylkingarinnar. Í bæklingnum Lífsgæði – Baráttumál Samfylkingarinnar í málefnum eldri borgara sem sendur var öldruðum en ekki öðrum kjósendum kemur fram að Samfylkingin vill lækka tekjuskatt af greiðslum úr lífeyrissjóðum úr 35,72% í 10%. Hún vill einnig að persónuafsláttur verði áfram sá sami: „Samfylkingin leggur því til að greiðslur úr lífeyrissjóðum beri 10% skatt í stað 35,72% tekjuskatts. Lífeyrisþegar munu eftir sem áður njóta sama persónuafsláttar og aðrir.“
Þetta þýðir að skattleysismörk lífeyrisþega hækka úr 90 þúsund krónum í 320 þúsund krónur! Hjón geta því haft 640 þúsund krónur úr lífeyrissjóði á mánuði án þess að greiða tekjuskatt.
Ung hjón – eða bara sextug hjón sem eru enn á vinnumarkaði með sömu tekjur – þurfa hins vegar að greiða 155 þúsund krónur á mánuði í skatt af slíkum tekjum.
Þessi tillaga færir eldri hjónum sem hafa 640 þúsund úr lífeyrissjóði því um 165 þúsund króna kjarabót. Eldri hjón sem hafa nú samtals 250 þúsund krónur úr lífeyrissjóði bæta hag sinn hins vegar aðeins um 21 þúsund krónur við það að skattaleysismörk hjóna hækki í 640 þúsund eins og Samfylkingin leggur til.
Tillaga Samfylkingarinnar um að lækka tekjuskatt einstaklinga á ákveðinn hóp manna úr 35,72% í 10% kemur ekki aðeins á óvart af því hún skilar efnamestu ellilífeyrisþegunum mestu heldur einnig vegna þess að um árabil var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar borgarstjóri í Reykjavík og hækkaði útsvarið á borgarbúa – og þar með tekjuskattshlutfallið – upp að mörkum hins löglega.
Tillaga Samfylkingarinnar er augljóst yfirboð til ákveðins hóps og það er forkastanlegt að kynna hana aðeins fyrir þessum hópi en ekki öðrum kjósendum. Tillöguna er jafnvel ekki að finna á heimasíðu hins nútímalega jafnaðarmannaflokks.
Það er líklega einsdæmi að stjórnmálaflokkur sendi afmörkuðum hópi kjósenda loforð um að lækka skatta á þennan sama hóp og reyni um leið að leyna aðra kjósendur því að slíkt loforð sé gefið.