Árni Magnússon hefur ákveðið að láta af embætti félagsmálaráðherra til að einbeita sér að flokkun handritasafns síns. Hann sagði í samtali við fréttamenn í gær að stjórnmál væru „heillandi fyrir þá sem eru tilbúnir til þess að gefa sig í þau af fullum krafti“. Það væri hann ekki lengur og vildi hann því víkja fyrir framtíðarmanni sem væri „fullur eldmóði“ og myndi gefa sig allan í baráttuna.
Við starfi hans tekur Jón Kristjánsson.
Íslensk togaraútgerð hófst hinn 6. mars árið 1905 er togarinn Coot kom til Hafnarfjarðar. Áður höfðu nokkrir erlendir togarar veitt hér við land við mikla reiði og ótta Íslendinga sem töldu að botnvarpan myndi leiða til algerrar eyðingar og hruns. Botnvarpan var sögð vera „ógurlegri en jarðskjálfti“ og „voðalegri en svartidauði“, svo það er ekki nýtt að menn telji að ný tækni og ný tól muni leggja allt í rúst ef þau verði ekki bönnuð strax. Með útgerð Coots rann hins vegar upp fyrir mönnum að botnvarpan varð landinu til viðreisnar en ekki hruns og íslenskt þjóðfélag gerbreyttist með togaraöldinni. Ásgeir Jakobsson rithöfundur, sem flestum meira skrifaði um íslenskan sjávarútveg og þá sem hann stunduðu, ritaði á sínum tíma bók um upphaf togveiða við Ísland og sögu fyrsta togara Íslendinga. Bók hans, Kastað í Flóanum, kom fyrst út árið 1966 en var gefin út að nýju endurskoðuð á síðasta ári. Eins og Ásgeirs var siður er bókin ekki síður aldarfarslýsing en frásögn af ætluðu málefni og skrifuð á því mannamáli sem Ásgeir notaði jafnan í bókum sínum. Í einum kafla bókarinnar fer Ásgeir þessum orðum um Dani og það happ sem hann telur hafa verið að þeir en þó ekki aðrir gerðust hér herrar:
Íslendingar eiga Dönum mikið að þakka, þó að fæst af því væri þeim sjálfrátt. Þeir voru að vísu lengst af með einhvern rembing, eins og feitra manna er háttur, en þetta var sauðmeinlaust fólk inni við beinið, og nutum við þess oft. Þeir voru engir menn til að stjórna þessari víðáttumiklu og erfiðu nýlendu, en vildu þó ekki gefast alveg upp. Þeim féll ekki dvölin á Íslandi, sem ekki var vonlegt, svo ólíkt, sem það land er heimalandi þeirra, og þó var þjóðin enn ólíkari þeim. Atvinnuhættir á Íslandi voru og þannig, að þar kunnu Danir aldrei neitt til neins; hver óvitlaus Dani hefði heldur látið festa sig upp, en gera það að lífsstarfi sínu að elta rolluskjátur um fjöll og kletta Íslands eða róa sexæringi á þorsk fyrir ströndum þess. Málið gátu þeir ekki lært, veðráttuna þoldu þeir ekki og fólkið þaðan af síður. Það hefði annað komið á daginn, hefðum við haldið áfram að vera undir Norðmönnum, að ekki sé nú talað um ef Englendingar eða Þjóðverjar hefðu hafizt hér til ríkis. Þá hefði orðið þröngt fyrir dyrum hjá einhverjum kotbóndanum, og ekki líklegt að við værum til sem þjóðflokkur. Þannig getum við aldrei þakkað forsjóninni nógsamlega fyrir að senda okkur Dani, þá einu þjóð af nálægum þjóðum, sem gat ekki með nokkru móti hugsað sér að byggja landið. Hins vegar er Íslendingum skylt að tala illa um Dani, vegna sögulegrar hefðar á þeirri íþrótt og verður þeirri venju haldið hér. |