Þriðjudagur 7. mars 2006

66. tbl. 10. árg.

Ö ssur Skarphéðinsson alþingismaður heldur úti bloggsíðu sjálfum sér til ánægju. Í einum af mörgum pistlum sínum sem ritaðir eru eftir tvö eða þrjú, að nóttu, segir hann frá hræðilegu mishermi Fréttablaðsins. Í fyrradag mun Fréttablaðið nefnilega hafa breitt út þær „lygar“ að Össur hafi sótt lýðræðisríkið Tævan heim fyrir nokkrum árum. Um þetta segir Össur:

Ég hlýt að hafa verið í lengsta blakk-áti sögunnar meðan á ferðinni stóð. Ég man bara ekkert eftir henni. Staðreyndin er auðvitað sú, að þetta er tóm vitleysa hjá Jóhanni [blaðamanni Fréttablaðsins] og engin fótur fyrir þessu. Ég hef aldei komið til Taiwan og geri það varla úr þessu. Nú hefur hins vegar Jóhanni ábyggilega tekist að gera mig að persona non grata hjá Kínverjunum, sem eru æfir út í alla sem fara til Taiwan. Ég vona hann leiðrétti þessa endemis vitleysu…
Það gæti orðið bið á því að kommúnistastjórnin í Kína haldi upp á ár vindhanans. Hann er ábyggilega orðinn persona non grata.

Já ekki er það gott að Össur verði „persona non grata hjá Kínverjum“. Af því hefur hann miklar áhyggjur. Hann vill ekki að það spyrjist upp á meginland Kína að hann hafi stigið fæti á eyjuna við strönd landsins þar sem einu lýðræðislega kjörnu stjórnvöldin í Kína starfa. Það gæti komið styggð að alræðisstjórn kínverska kommúnistaflokksins. Hún gæti orðið æf út í Össur. Og til að taka af allan vafa um tryggð sína við kommúnistaflokkinn hefur Össur pistil sinn á orðunum: „Taiwan er ekki hátt skrifað hjá mér.“

Í alllöngu máli gerir Össur svo grein fyrir tilurð Tævans og finnur sendimönnum ríkisins flest til foráttu. Ekki síst erindreka þess hér landi sem hann segir „skrítin kall“ og „frekjan og yfirgangurinn“ í þeim manni sé slíkur að hann treysti sér ekki lengur til að tala við fulltrúa Tævans. Að því ógleymdu að Össur segist varla geta hugsað sér að fara til Tævans „úr þessu“. Það gæti þó breyst ef Össur fær þá ósk sína uppfyllta að Tævan verði sett undir stjórnina í Peking. „En óhjákvæmilega verður Taiwan sameinað Kína einhvern tíma í framtíðinni. Ég styð það til dæmis heils hugar.“

Össur víkur hins vegar ekki einu orði að ástandi mannréttindamála á meginlandinu. Enda fellur það alveg í skuggann af áhyggjum hans af því að verða „persona non grata“ hjá kínverska kommúnistaflokknum.

Í gærkvöldi hafði Ríkissjónvarpið það eftir forystumönnum stjórnarandstöðunnar að hvarf Árna Magnússonar úr ríkisstjórn myndi veikja Framsóknarflokkinn þar sem Árni hefði „staðið sig vel“ sem ráðherra og verið „vel liðinn“. Fréttamaður virtist ekki sjá ástæðu til að spyrja hverjir hefðu krafist afsagnar þessa sama Árna fyrir aðeins örfáum vikum. Og ekki fannst fréttmanni heldur ástæða til málalenginga þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór að finna að því að það hefðu verið tíðar mannabreytingar í ríkisstjórninni á kjörtímabilinu. Einhver hefði kannski spurt hvað R-listinn hefði þurft marga borgarstjóra það sem af er kjörtímabili borgarstjórnar. Eru það ekki þrír sem hafa gegnt því eina embætti? Og þeim þriðja hafnað í prófkjöri eigin flokksmanna og hefur nú aðeins það hlutverk að svara fyrir þau mál sem sá sem vill verða númer fjögur vill ekki bendla sig við.