Samfylkingin er farin að auglýsa af miklum móð og getur enginn láð henni það úr því sem komið er. Nýjasta auglýsingin, og sú furðulegasta, sýnir luralegan náunga gagnrýna Samfylkinguna og ætlað að sýna hversu gagnrýnendur hennar séu ómerkilegir náungar. En auglýsingin segir eiginlega meira en mörg orð um Samfylkinguna og vinnubrögðin sem notuð eru til að reyna að koma henni til valda. Í auglýsingunni er maðurinn látinn gagnrýna Samfylkinguna fyrir að hafa komið upp fjölskyldu- og húsdýragarði, enda er sú framkvæmd af mjög mörgum talin vel heppnuð. Því tilvalið að sýna leiðindapúkana sem gagnrýna Samfylkinguna fyrir þennan vinsæla garð. En gallinn er bara sá að Samfylkingin eða R-listinn áttu nákvæmlega engan þátt í gerð fjölskyldu- og húsdýragarðsins. Húsdýragarðurinn var opnaður árið 1990 og fjölskyldu- og húsdýragarðurinn opnaður af Markúsi Erni Antonssyni borgarstjóra árið 1993.
Ef einhvers staðar eru til menn sem gagnrýna Samfylkinguna fyrir að hafa opnað þennan vinsæla garð þá eru þeir menn vitanlega hlægilegir. En hlægilegri eru þó Samfylkingarmennirnir sem auglýsa sjálfir að það hafi þeir gert.
Eða þá fréttamennirnir sem einskis spyrja.
SSem kunnugt er varð R-listinn bensínlaus fyrir nokkrum misserum og hefur síðan skipt tvisvar um borgarstjóra. Hverjir urðu fyrir valinu leiðir aftur hugann að því hvert raunverulegt borgarstjóraefni Samfylkingarinnar er fyrir kosningarnar 27. maí. Síðast þegar flokkurinn valdi sér borgarstjóra úr hópi borgarfulltrúa var Stefán Jón Hafstein oddviti flokksins í borgarstjórn ekki gerður að borgarstjóra heldur frambjóðandi aftarlega á lista sem náði slökum árangri í prófkjöri. Össur Skarphéðinsson formaður flokksins var ekki forsætisráðherraefni fyrir síðustu kosningar heldur frambjóðandi í 5. sæti sem ekki fór í prófkjör. Allt er þetta að sjálfsögðu gert í þágu lýðræðislegra vinnubragða sem Samfylkingin boðar stíft. Hvernig eiga menn að treysta því að Dagur B. Eggertsson sé borgarstjóraefnið nú? Dagur fór í prófkjör og náði góðum árangri en það tvennt hefur hingað til útilokað menn frá frekari frama innan Samfylkingarinnar.
En talandi um bensínleysi R-listans þá kom það fram í gær í Umhverfisráði Reykjavíkur að bensínstöðvum í borginni hefur fjölgað um helming í valdatíð R-listans. Þegar R-listinn tók við árið 1994 voru þær 26 en eru nú 39. R-listinn komst til valda með þá stefnu að auka vægi strætisvagna á kostnað einkabílsins. Einkabílum hefur aldrei fjölgað jafn mikið og á valdatíð R-listans í borginni og síðasta heila árið sem hann stjórnaði slógu borgarbúar Íslandsmetið í bílakaupum og eru að öllum líkindum höfuðborgarheimsmethafar í einkabílaeign. Strætisvagnafarþegum hefur fækkað jafnt og þétt í valdatíð R-listans.