Ólafur Teitur Guðnason skrifar vikulega pistla um íslenska fjölmiðla í Viðskiptablaðið og eins og menn vita hefur fyrsta ári þeirra pistla verið safnað á bók, „Fjölmiðla 2004“. Í henni kennir margra grasa. Í einum pistlinum fjallaði Ólafur Teitur um þáttinn „Í vikulokin“ sem var í Ríkisútvarpinu í umsjón Hildar Helgu Sigurðardóttur. Einn gesta hennar var Hrafnhildur nokkur:
Eins og nafnið gefur til kynna er tilgangur þáttarins að fjalla um vikuna sem leið. Fram kom í upphafi þáttarins að Hrafnhildur var í útlöndum hálfa vikuna en þótti einhverra hluta vegna heppilegur gestur í þáttinn. Hildur Helga Sigurðardóttir, umsjónarmaður, spurði Hrafnhildi hvernig vindarnir blésu í Bandaríkjunum, þar sem hún hefði verið. Hrafnhildur svaraði að bragði: „Ja, ég hitti gamla kærustu í New York og við byrjuðum á því að skála fyrir því að Reagan væri dauður.“ Hrafnhildi var ekki vísað á dyr. |
Hrafnhildur þessi er Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Samtakanna 78, sem þessa dagana ávítar biskupinn yfir Íslandi harðlega fyrir að vera ekki nógu háttvís í tali. Ekki nógu umburðarlyndur. Bauðst víst til þess að taka hann á námskeið og hvaðeina.
Álaugardag voru haldnir tónleikar í andstöðuskyni við virkjanir. Þeir sem að þeim stóðu hafa síðan talað um að góð aðsókn sýni andstöðu landsmanna til virkjana, en uppselt mun hafa verið á tónleikana sem haldnir voru í Laugardalshöll. Nú vill Vefþjóðviljinn ekki gera minna úr þessu framtaki en efni standa til, en leyfir sér þó að vera þeirrar skoðunar að það segi því sem næst ekki neitt um skoðanir landsmanna á virkjunum þó uppselt hafi verið í höllina. Á tónleikunum komu fram tónlistarmenn á borð við Björk Guðmundsdóttur og Bubba Morthens og hljómsveit eins og Sigur rós, fyrir nú utan erlenda tónlistarmenn eins og Damon Albarn. Hvaða tíðindi eru það þó Laugardalshöll fyllist við sameiginlega tónleika Bjarkar Guðmundsdóttur og Sigurs rósar? Á tónleikana kom þriðjungur þess fjölda sem fór á tónleika Duran Duran í Egilshöll í fyrrasumar og það segir ekki neitt um skoðanir á öðru en tónlist.
Og ímyndum okkur nú til gamans að svo ólíklega vildi til að írska hljómsveitin U2 kæmi til landsins og héldi tónleika undir yfirskriftinni „virkjum allt“ og milli laga myndi helsti hugsuður bandsins, trommuleikarinn Larry Mullen yngri, halda stuttar og stundum langar ræður um nauðsyn orkuframleiðslu, hvernig halda menn að þeir tónleikar yrðu sóttir? Það er einfaldlega ekki til á landinu sú húsbygging sem ekki myndi fyllast. Og margir þeirra sem skemmtu sér vel á laugardaginn myndu koma og njóta kvöldsins ekki síður. Fyrir utan Jakob Björnsson fyrrverandi orkumálastjóra myndi enginn tónleikagesta velta virkjunum fyrir sér. Og það þarf ekki slíka frægðarmenn sem U2 til. Allskyns misjafnlega útbrunnin erlend bönd fylla höllina og fara létt með. Fimmtánþúsund manns fóru til að sjá Duran Duran – sem er að vísu ekki marktækt enda þar á ferð samkvæmt skilgreiningu mesta band allra tíma. Þó vafalaust hafi einhverjir farið á laugardaginn vegna málefnisins eins, þá er það einfaldlega svo að það er afar erfitt að ímynda sér þann málstað sem gæti komið í veg fyrir að Laugardalshöllin fylltist þegar Björk, Sigur rós og félagar taka lagið. Og þó ekki væri öflugt kynningarátak eins og var fyrir þessa tónleika, þar sem til dæmis Morgunblaðið fór hamförum.
En þessar athugasemdir má helst ekki skilja sem kvartanir Vefþjóðviljans yfir tónleikunum eða sjónarmiðum þeirra sem þar komu fram. Það er ekkert við það að athuga að menn haldi tónleika til að vekja athygli á málstað sínum – og mætti liðið sem síðasta sumar stóð fyrir hinum og þessum skemmdarverkum undir umhverfisverndarflaggi, taka sér tónleikahald þetta til fyrirmyndar. Það er enginn réttur brotinn á öðrum þó haldnir séu tónleikar í löglegu skyni eins og að mótmæla virkjunum. Og þó að flestir hljóti nú að átta sig á því að aðsóknin segir í raun ekki mikið um skoðanir landsmanna á málefninu, þá má alveg segja að áhorfendur vissu fyrirfram hvað stóð til og komu samt.