Mánudagur 19. september 2005

262. tbl. 9. árg.

Nú hefur það verið reiknað út, að á síðasta ári hafi að meðaltali fjórtán menn á dag borgað sig inn á sýningar á Kjarvalsstöðum. Þetta þykir sennilega heldur lítið og jafnvel ástæða til að spyrja hvort eðlilegt sé að haldið sé úti svo dýrri starfsemi fyrir svo fáa. Hitt er svo ekki ómerkilegri spurning, hvort þessar tölur komi mörgum á óvart. Er vitað um einhvern fjölda fólks sem hefur gaman að því sem sumir eru farnir kalla myndlist, svona á síðustu árum? Er vitað um marga borgara sem hafa minnsta áhuga á „innsetningu í rými“ og myndu taka hana fram yfir til dæmis olíumálverk eða vatnslitamynd af einhverju mótívi, þó ekki yrði nema einu sinni? Er vitað um marga sem hafa áhuga á listsýningum þar sem enginn veit hvað eru sýningargripir og hvað er rusl sem gleymdist að fjarlægja fyrir opnun?

Nei, ætli það sé vitað um marga. Það er hins vegar vitað um marga sem taka að sér að fjármagna slíka listviðburði. Það eru nánar til tekið allir skattgreiðendur sem hafa það hlutverk.

Stjórnmálamenn þora hins vegar sjaldnast að segja aukatekið orð um þessi mál. Sennilega óttast þeir að vera um leið settir niður í Gefjun með Jónasi. Þó mætti vel færa rök fyrir því að stjórnmálamenn hefðu skoðanir á því hvernig opinberum listframlögum er varið. Best væri þó að engin slík framlög væru til staðar svo enginn, hvorki stjórnmálamenn né aðrir, þyrfti að hafa skoðun á þeim. Svo lengi sem verið að sýsla með opinbert fé, þá hefur það líkurnar með sér að útdeiling þess komi kjörnum fulltrúum borgaranna við. En vandamálið við sýningarhaldið og hið sífellda fámenni þar – nema auðvitað þegar verið er að sýna hefðbundna myndlist – er auðvitað, frá sjónarhóli Vefþjóðviljans, það að hið opinbera sé að skipta sér af þessu. Þegar einkaaðilar reka sýningarsali, þá er það vitaskuld þeirra mál hvað þar er sýnt. Þeir mega auðvitað vera með sýningu eftir sýningu þar sem allt snýst um „feminískt rými“ eða þá sýna myndbönd er sýna listamanninn við allskyns persónulega iðju sem ekki er vitað hvert erindi á við aðra menn, og svo framvegis, svo dæmi séu tekin af því sem boðið hefur verið upp á undanfarin misseri. Þegar menn reka opinbera sali, þá verður málið flóknara. Er sífellt hægt að rukka skattgreiðendur fyrir áhugamál svo óskaplega fárra?

Á móti yrði auðvitað sagt að hið opinbera sé að styðja list sem enginn vilji sjá, vegna þess að hún sé framtíðin. Borgararnir séu þröngsýnir og ef þeir fái einir að ráða þá verði engin þróun. Vitaskuld eru þetta ekki rök sem Vefþjóðviljinn tekur gild. Á þessum sviðum sem öðrum, á hið opinbera að láta skattgreiðendur sem mest í friði og leyfa þeim sjálfum að ráðstafa tekjum sínum og eigum. Skattgreiðendur geta þá veitt sér meira af því sem þeir kjósa, hvort sem það hefðbundnar nauðsynjar eins og húsnæði og matur, eða skemmtanir eins og bækur, ferðalög og myndlistarsýningar. Nú eða þá fleiri tómstundir, því með lækkuðum sköttum myndu margir vafalaust treysta sér til þess að vinna minna. Meginatriðið er það, að því lægri sem skattar eru, þeim mun líklegra er að fleiri fái varið tíma sínum og notið lífsins eins þeir sjálfir kjósa, en ekki eins og einhverjir aðrir kjósa að þeir kjósi.