Miðvikudagur 22. júní 2005

173. tbl. 9. árg.

Ríkisvaldinu er hreint ómögulegt að láta líf borgaranna í friði. Sífelld afskipti þess og hnýsni virðast lúta einhvers konar náttúrulögmáli. Það nægir ekki að sérhver Íslendingur er rækilega skráður í hvers kyns opinberar skrár og lista, þar sem tiltekið er hvar viðkomandi býr, með hverjum, í hve stóru húsnæði, hvaða bifreiðar hann ekur, hvar hann starfar og hvað hann fær í laun, svo lítið eitt sé nefnt. Nei, forvitni hins opinbera verður ekki svalað. Sífellt fleiri tegundir upplýsinga verður að skrá, til þess að hinn höfuðlausi þurs, ríkisvaldið, geti betur reynt að botna í þegnum sínum.

Og hvað er svo sem athugavert við það? Er ekki sjálfsagt að hver krókur og kimi í aumu lífi borgaranna sé kortlagður af hinu opinbera? Allt sem við tökum okkur fyrir hendur er jú bara mannlegt og ekkert til að skammast sín fyrir. Það má reyndar slá því föstu að það geti einungis annarlegar hvatir legið að baki því að hamast gegn upplýsingaöflun ríkisins. Þeir sem það gera hafa augljóslega eitthvað að fela. Þeir stunda eitthvað sem ekki þolir dagsljósið. Sem veldur því að það er einmitt sérstaklega mikilvægt að hreinsa til í þeirra skúmaskotum.

Nú er það að vísu svo að slík ryksugun kann að sjúga upp upplýsingar sem talist geta feimnismál, svo sem eitthvað tengt kynlífi manna eða heilsufari. En slíkt er auðvitað meinalaust, þar sem einungis sérstakir borgarar höndla upplýsingar ríkisins, þ.e. ríkisstarfsmenn. Lögregluþjónar, tollgæslumenn, skattstjórar, svo einhverjir séu nefndir. Þeir munu að sjálfsögðu gæta þagmælsku um allar þessar upplýsingar og einungis skoða þær að því marki sem nauðsynlegt er. Við hljótum að treysta starfsmönnum hins opinbera, enda engin ástæða til annars. Þetta er jú ekki bara eitthvað fallvalt fólk úti í bæ, sem vinnur hjá fégráðugum einkafyrirtækjum.

Nú þegar býr ríkisvaldið yfir skrám þar sem flest ytri atriði í lífi borgaranna eru kortlögð. Því verður að leita á ný mið í upplýsingaleitinni. Ríkið vill líka skrá hvað við segjum og gerum og helst hvað við hugsum líka. Auðvelt er að henda reiður á hvað menn segja á opinberum vettvangi, á fundum eða í blaðagreinum. Verra er að kortleggja hvað menn segja eða sýsla á Netinu. Það er þó að verða brýnt að ríkisvaldið hafi góða yfirsýn þar líka, því blessaðir borgararnir eru farnir að stunda stóran hluta sinna samskipta á Netinu. Þeir senda tölvupóst, horfa og hlusta á útsendingar, tjá sig á spjallþráðum, lesa vefsíður og skrifa þær jafnvel sjálfir, allt saman eftirlitslaust. Það er augljóst að hið opinbera þarf að fá þessar upplýsingar. Allar. Um þetta verður að setja lög. Það er ekki spurning.

Fyrr í þessum mánuði tóku gildi lög um breytingu á lögum um fjarskipti en Vefþjóðviljinn sagði frá frumvarpinu sem nú er orðið að lögum þegar það var lagt fram á Alþingi í vetur sem leið. Samkvæmt lögunum skulu öll fjarskiptafyrirtæki varðveita upplýsingar um alla netnotkun sérhvers viðskiptavinar síns í sex mánuði, svo sem hvaða vefsíður viðkomandi hefur heimsótt, hversu oft og hvenær. Þetta skal gert „í þágu rannsókna opinberra mála og almannaöryggis“. Þá er lögreglu samkvæmt lögunum ekki lengur þörf á að afla sér dómsúrskurðar til að mega fá upplýsingar hjá fjarskiptafyrirtækjum um hver sé notandi tiltekins vistfangs (IP-tölu).