Miðvikudagur 6. október 2004

280. tbl. 8. árg.
Það hallar á konur í Hæstarétti og eðlilegt er því að sá sem fer með veitingarvaldið hugi af alvöru að því atriði þegar skipað er í embættið og láti hávaðann og þytinn frá hrossunum ekki villa sér sýn.
 – Guðmundur Magnússon í leiðara Fréttablaðsins „Hlutur kvenna gleymist ekki“ 29. september 2004.

G

Úr DV í vikunni. Hlutur kvenna gleymist alls ekki ekki hjá útgefendum DV og Fréttablaðsins.

uðmundur Magnússon „fulltrúi ritstjóra“ á Fréttablaðinu ritaði tvo leiðara í blaðið nýlega því til stuðnings að skipa ætti konu dómara í hæstarétt. Annar bar fyrirsögnina „Hlutur kvenna gleymist ekki“. Helstu rök Guðmundar fyrir þessari skoðun eru þau að konur séu fáar fyrir í réttinum og hafi verið fáar gegnum tíðina. Hefur þetta sjónarmið jafnframt litað fréttaflutning blaðsins af ýmsum öðrum ráðningum í þjóðfélaginu undanfarið.

Í hæstarétti sitja níu dómarar og þar af eru tvær konur. Vefþjóðviljinn tekur ekki undir með Guðmundi að skipa eigi konu vegna þess að karlar voru oftar skipaðir fyrr á árum eða séu fleiri nú í réttinum. Það er ekki sanngjarnt gagnvart umsækjendum að fortíðin, sem þeir eiga enga aðild að, sé notuð þannig gegn þeim. Fortíðin verður ekki leiðrétt með ranglæti í nútíð.

Þeim, sem eru að setja upp ný fyrirtæki og ráða til sín nýtt fólk, ber heldur engin skylda til að ráða aðeins konur eða bara karla eða eitthvað sérstakt hlutfall kynjanna. Þetta hafa Guðmundur og félagar hjá útgáfufélaginu Frétt ehf. raunar haft að leiðarljósi. Fréttablaðið má til að mynda alveg hafa karlkyns ritstjóra, karlkyns aðstoðarritstjóra, báða fréttaritstjórana karla og fulltrúa ritstjóra karl. Þegar skipt verður um ritstjóra á næstunni er ekkert við það að athuga að það verði nýr gamall karl og nýr útgáfustjóri verði karl og áfram muni aðeins karlar skrifa leiðara í blaðið. Í stjórn útgáfufélags Fréttar ehf. eru fimm einstaklingar, allt karlar. Það er þeirra mál. Og jafnvel þótt í móðurfélaginu, afsakið föðurfélaginu, Norðurljósum séu bara karlar í stjórn að ógleymdum karlkyns forstjóranum á enginn heimtingu á öðru. Það á jafnt við um systurblað, úps bróðurblað, Fréttablaðsins, DV. Í DV skrifa eingöngu karlar leiðarana, ritstjórarnir eru karlmenn, fréttastjórarnir eru karlar og auðvitað útgáfustjórinn. Af fimmtán æðstu yfirmönnum og stjórnarmönnum Fréttablaðsins og DV eru fimmtán karlar. Hlutur kvenna gleymist ekki, hann er þvert á móti eftirminnilegur.

Þegar talið er frá Guðmundi Magnússyni og upp úr hjá Frétt ehf. þá lítur yfirstjórnin sumsé svona út hjá útgáfufélaginu sem hvetur menn með stríðsfyrirsögnum og æsifréttum til að gleyma ekki hlut kvenna:

Stjórn Fréttar ehf.: Yfirstjórn Fréttablaðsins: Yfirstjórn DV:
Árni Hauksson
Einar Þór Sverrisson
Jón Ásgeir Jóhannesson
Ragnar Tómasson
Skarphéðinn Berg Steinarsson
Gunnar Smári Egilsson fráfarandi ritstjóri
Kári Jónasson verðandi ritstjóri
Jón Kaldal aðstoðarritstjóri
Sigmundur Rúnarsson fréttaritstjóri
Sigurjón M. Egilsson fréttaritstjóri
Gunnar Smári Egilsson útgefandi
Illugi Jökulsson ritstjóri
Mikael Torfason ritstjóri
Kristján G. Burgess fréttastjóri
Reynir Traustason fréttastjóri

Ýmsar konur, þeirra á meðal hinar „heitu“ María og Aðalheiður og Marel sem er „tilbúin í að gera eitthvað skemmtilegt með þér“, skipa hins vegar veglegan sess í auglýsingadálki DV. Stendur DV betur að því leyti en Fréttablaðið. Og ekki má heldur gleyma henni Ísafold, hún prentar bæði blöðin.

Hlutur kvenna gleymist ekki á Fréttablaðinu og DV.