Þótt Fréttablaðið og Samfylkingin telji aðild Íslendinga að Evrópusambandinu næsta mál á dagskrá íslenskra stjórnmála er líklegra að það sem mesta athygli fangi á hausti komanda séu langþráðar skattalækkanir. Þegar hefur verið lögfest að sérstakur tekjuskattur, svonefndur hátekjuskattur, muni lækka í áföngum þar til hann fellur niður um þar næstu áramót. Þetta ætti að gleðja þá sem hafa áhyggjur af jaðaráhrifum skattkerfisins og einnig þá sem eiga erfitt vegna þess að þeir telja að mikill munur sé á tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti. Þótt stjórnarandstöðuþingmenn lýsi stundum áhyggjum af báðum þessum málum verður gleði þeirra vegna þessarar lækkunar tekjuskattsins væntanlega blendin því bæði Samfylkingin og VG hafa lagt til að ímyndað bil á milli tekjuskatts og fjármagnstekjuskatts verði brúað með því að hækka fjármagnstekjuskattinn. Að auki vill Samfylkingin taka upp þrepaskiptan tekjuskatt sem eykur jaðaráhrif skattkerfisins.
Vafalítið mun athyglin beinast að hinni almennu lækkun tekjuskattshlutfallsins en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sagt að það verði lækkað um allt að 4% á kjörtímabilinu. Ef það tækist færi hlutfallið í fyrsta sinn niður fyrir þau 35,2% sem hann var þegar núverandi staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp árið 1988. Ekki hafa verið teknar nýjar ákvarðanir um lækkun á tekjuskatti einstaklinga frá árinu 1999 og þær sem teknar voru þá hafa að hluta verið etnar upp af sveitarfélögnum sem hækka útsvarið linnulítið. Og verða þá allir ánægðir þegar hlutfallið verður komið niður fyrir það sem það var í upphafi kerfisins? Verður umræða um skattalækkanir þar með óþörf? Nei því fer fjarri. Til marks um það má benda á grein í Morgunblaðinu í gær eftir einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.
Sá sem þetta ritar telur að líta beri á þau áform, sem ríkisstjórnin hefur kynnt um skattalækkanir og ríkisútgjöld, sem lágmarksmarkmið. Ekki á að útiloka aðrar breytingar í skattamálum í þeim tilgangi að draga enn frekar úr álögum bæði á heimilin og atvinnulífið í landinu. Ekki er heldur ástæða til að sætta sig við það til frambúðar að ríkisútgjöld vaxi frá ári til árs. Þvert á móti er rétt að vinna að því að draga úr umsvifum ríkisins með það að markmiði að auka svigrúm einstaklinga og fyrirtækja. Þau markmið sem birtast í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, eru þó mikilvæg skref í þessa átt og áríðandi að þeim verði hrint í framkvæmd sem fyrst. |
Undir þessi orð Birgis Ármannssonar er full ástæða til að taka. Þær skattalækkanir sem stjórnarflokkarnir lögðu upp með í stjórnarsáttamála á síðasta ári eru ekki síðustu verkefnin í skattamálum. Bæði neysluskattar og tekjuskattur einstaklinga verða áfram háir þótt þessi markmið náist.