Laugardagur 7. febrúar 2004

38. tbl. 8. árg.

S

Störfum fer nú fjölgandi í Bandaríkjunum sem kemur heim og saman við að „kunningi Víkverja“ fullyrti að svo væri ekki.

á grunur læðist óneitanlega að mönnum að hinn þjóðkunni hrakfallabálkur „kunningi Víkverja“ sé enginn annar en Karl Blöndal aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins. Svo óheppinn er hann. Ekki síst þegar kemur að umfjöllun um þau mál er varða George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Eins og Vefþjóðviljinn rakti í gær bendir ekkert til annars en að Bush hafi verið rétt kjörinn forseti Bandaríkjanna. Í grein í Morgunblaðinu 14. desember 2000 fullyrti Karl Blöndal hins vegar að Al Gore hefði fengið fleiri atkvæði á Flórída. Það var að vísu ekkert sem benti til þess þá og það sem síðan hefur verið gert til að komast til botns í málinu bendir allt til þess að Bush hafi fengið fleiri atkvæði en Gore. Vart þarf að taka fram að aðstoðarritstjórinn studdi Gore í kosningunum og saman deildu þeir þeirri slysalegu útkomu Gores að fá fleiri atkvæði en Bush á landsvísu en færri kjörmenn og verða að láta í minni pokann.

Aðstoðarritstjórinn mætti í Silfur Egils á Stöð 2 nú í janúar til að hita upp fyrir forsetakosningarinnar í nóvember næst komandi. Þar upplýsti hann meðal annars að Bush hefði „þjösnað“ skattalækkunum í gegnum þingið. Ljóti þjösnaskapurinn að fólk fái að hafa sjálfsaflafé sitt í friði fyrir stjórnmálamönnum. Aðstoðarritstjórinn upplýsti einnig að sá mikli hagvöxtur sem hefur verið undanfarin misseri í Bandaríkjunum sé bara „tölur á blaði“ þar sem hann skilaði sér ekki í fleiri störfum. Þá höfðu nýlega borist fréttir af því að þrátt fyrir allan hagvöxtinn hefði störfum aðeins fjölgað um 1.000 í desember.

Í gær bárust hins vegar fréttir af því að störfum í Bandaríkjunum í desember fjölgaði ekki um 1.000 heldur um 16.000 samkvæmt nýrri talningu. Og í janúar, á sama tíma og aðstoðarritstjórinn sat í sjónvarpssal og hélt því fram að hagvöxturinn væri bara „tölur á blaði“ fjölgaði störfum um 112.000 sem er mesta aukning í þrjú ár.

Nú vantar bara að kunningi Víkverja spái andstæðingi Bush sigri í kosningunum í haust – svona til að innsigla sigur Bush.