Miðvikudagur 10. mars 2004

70. tbl. 8. árg.

Þ að er spennandi að vera skattborgari, um það verður ekki deilt. Spennan felst að vísu ekki í því hvort útgjöld hins opinbera muni hækka eða lækka, því þau hækka alltaf. Það er þess vegna ekkert spennandi fyrir skattgreiðendur að velta því fyrir sér hvort að nýjar tillögur um aukna skatta verði lagðar fram eða þeim hrint í framkvæmd, heldur hver leggur þær fram og hvenær. Nýjasta aðgerðin í skattahækkunarmálum er að vísu ekki alveg ný og á sér reyndar langan aðdraganda, en hún hlýtur engu að síður að hafa glatt margan skattgreiðandann. Aðgerðin er skipun dómnefndar sem efna á til samkeppni um svokallað menningarhús á Akureyri. Menningarhúsið verður ekkert slor og í tilkynningu menntamálaráðherra um dómnefndina segir að áætlaður kostnaður séu 1,2 milljarðar króna, eða um 16.000 krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Því verður varla trúað að nokkur fjögurra manna fjölskylda hefði haft nokkuð þarfara við 16.000 krónurnar að gera og þess vegna hljóta allir að fagna því að verkinu miðar áfram og að brátt verða skattgreiðendur losaðir við þetta óþarfa fé sem hefur ekki verið þeim til nokkurs annars en ama og leiðinda. Að ekki sé talað um menningarleysið sem þetta fé í vösum skattgreiðenda hefur valdið, bæði á Akureyri og annars staðar á landinu.

En um leið og skattgreiðendur hafa nú glaðst yfir auknum ríkisútgjöldum eru þeir hryggir yfir að þau skyldu ekki verða enn meiri. Sumir hafa nefnilega lent í því að við lestur skattskýrslu sinnar hafa þeir áttað sig á því að þeir þurfa að halda eftir nokkru af því fé sem þeir hafa aflað og þeim er það vitaskuld óskapleg raun. Það er að vísu bót í máli að þeir geta drifið sig út í næstu verslun og keypt eitthvað til að koma á að giska fimmtungnum af því sem eftir er í hendur ríkisins. Þetta er þó langt í frá nóg fyrir þá sem vilja ólmir berjast gegn eigin ómenningu og forða fjármunum sínum úr eigin greipum. Þeim skal þó bent á að hægt er að bæta hlutfallið verulega með því að eyða peningunum í áfengi, bensín, bíla eða aðra óþarfa lúxusvöru. Með því að kaupa slíkar vörur má losna við ríflega helming þess sem ríki og sveitarfélög taka ekki með beinum sköttum, þannig að með góðum vilja og einbeittri skapfestu er hægt að tryggja að drjúgur helmingur þess fjár sem menn afla fari þangað sem féð á heima, það er að segja til hins opinbera.