Ádögunum kynnti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra að hann hefði, eftir samráð við nokkra samráðherra sína, þar á meðal utanríkisráðherra og fjármálaráðherra, markað þá stefnu að á næstu árum yrði fjölgað í svonefndri sérsveit lögreglunnar þannig að í fyllingu tímans yrðu um 50 lögreglumenn á skrám hennar en nú eru þeir rúmlega tuttugu. Engar mannaráðningar hafa farið fram vegna þessa og engin bindandi ákvörðun verið tekin um fjölgun sérsveitarmanna, enda lýsti ráðherrann einungis stefnu en ekki ákvörðunum um það mál. Engu að síður hlupu nokkrir stjórnarandstæðingar til og að minnsta kosti einn stjórnarþingmaður með þeim og tóku að tala eins og dómsmálaráðherra hefði stofnað til stórkostlegra útgjalda án fjárlagaheimilda og hegðað sér af einstöku ábyrgðarleysi.
Allt í lagi, að vísu er ekki búið að fjölga um einn einasta mann í sérsveit lögreglunnar og engin bindandi ákvörðun verið tekin um það, en látum það vera, alltaf gaman þegar menn taka að verja ríkissjóð og líka þegar það er gert fyrirfram. En í þessu samhengi, var þá ekki dálítið gaman að fylgjast með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna – hverjum einum og einasta – gera sér ferð í ræðustól Alþingis í gær til að lýsa stuðningi sínum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga? Yfirlýsinga um stórfelld útgjöld á næstu árum, svo sem með hækkun atvinnuleysisbóta. Það sem stjórnarandstaðan hafði við þá yfirlýsingu að athuga var einkum það að ekki væru gefin fyrirheit um meira en gert var. Engar áhyggjur af nokkrum hlut, hefðu bara viljað miklu meira og helst fyrr.
Ígærkvöldi sagði fréttastofa Ríkisútvarpsins langa frétt af því að st. John Kerry, væntanlegur forsetaframbjóðandi bandarískra demókrata, hefði tilkynnt að nú færu andstæðingar hans að ráðast að sér og sínum. Fylgdi þessum upplýsingum mikill lestur fréttamannsins á illsku repúblikana sem hefðu víst jafnan þann sið að níða skóinn af andstæðingum sínum, góðu demókrötunum, en eins og kunnugt er bjóða evrópskir fjölmiðlar upp á reglubundin námskeið um illmennsku George W. Bush. Næstu vikurnar verður á þeim námskeiðum hamrað á því að fanturinn muni tala með neikvæðum hætti um Kerry og sýna þannig eigið innræti. En hvernig er það annars, hefur ekki verið haldið úti stórkostlegum neikvæðum áróðri um George Bush og stjórn hans alla hans valdatíð? Hafa besserwisserar evrópsku intellígensíunnar ekki dælt út úr sér slíkum áróðri frá því áður en hann var kjörinn til embættis? Er ekki búið að skrifa leiðara og Reykjavíkurbréf um það að Bush hafi „stolið“ kosningasigrinum á sínum tíma og það eins þó látlausar endurtalningar í Florida – og líka þær þar sem farið er eftir ýtrustu kröfum Gores og demókrata – sýni undantekningarlaust að „þjófurinn“ Bush fékk einfaldlega fleiri atkvæði en „hinn rétt kjörni“ Gore? Hefur Bush ekki látlaust verið lýst sem röktu fífli, manni sem varla geti stunið upp heilli setningu svo skiljist? Hefur intellígensían ekki verið með látlausan neikvæðan áróður gegn Bush, afbakað flest sem frá honum hefur komið og gert það sem í hennar valdi hefur staðið til að telja einfeldningum trú um að hann sé ofstækisfullur stríðsmaður, hættulegur fantur, þaulhugsaður kosningasvindlari, lævís undirróðursmaður og, síðast en ekki síst, algert flón?
Og svo kemur John Kerry og segir að nú verði hann sjálfur eflaust gagnrýndur enda svífist þessir repúblikanar einskis. Og íslenska Ríkisútvarpið endurtekur með hryllingi og heima situr eflaust fólk og hugsar með sér: Já það verður að losna við þennan Bush áður en hann veldur heimsendi.
Og enginn veltir því einu sinni fyrir sér að ríki eins og Íran og Líbýa eru skyndilega orðin samvinnuþýð og að minnsta kosti þykjast hafa látið af tilraunum sínum til að útvega sér kjarnorkuvopn. Neinei, það þarf bara að losna við flónið Bush svo allt geti farið að ganga vel í heiminum.