Ítengslum við umræður um þjóðaratkvæðagreiðslu um nýlega breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum, hefur byrjað hefðbundinn söngur þeirra sem vilja grafa undan fulltrúalýðræðinu og taka í staðinn upp þjóðaratkvæðagreiðslur um ýmis mál. Vefþjóðviljinn hefur jafnan verið andvígur slíkum hugmyndum og skiptir ekki um skoðun á því nú, þó nú sé til umræðu mál sem blaðið var andvígt þegar það var afgreitt á Alþingi. Vefþjóðviljinn álítur að fulltrúalýðræði, með kostum sínum og göllum, sé mun skynsamlegri leið en almennar atkvæðagreiðslur um einstök mál, og það þó eins að menn geti við skyndiskoðun talið að það sé einmitt lýðræðislegra að „fólkið fái bara að ráða“. Þeirri skyndiskoðun fylgir gjarnan lýðskrum eins og fulltrúalýðræðissinnar „treysti ekki þjóðinni“ til að gera upp hug sinn, eða þá „óttist dóm þjóðarinnar“: „Haldiði að hinn almenni maður sé svo vitlaus að hann geti ekki kosið um málin? Hvernig getiði þá treyst honum til þess að kjósa sér þingmenn til að taka ákvarðanir“, spyrja slíkir menn stundum og eru ánægðir með. Vefþjóðviljinn lítur ekki svo á, að þingmenn, eða aðrir kjörnir fulltrúar, séu að jafnaði betur gerðir eða snjallari en fólk í öðrum starfsstéttum er að jafnaði. Sjálfsagt á það við um þingheim eins og aðrar starfstéttir að þar má af og til finna afburðamann og alger flón og svo flest þar á milli. Það breytir hins vegar ekki því sem blaðinu þykir skipta máli um um fulltrúalýðræði og svo almennar atkvæðagreiðslur um einstök mál. Fyrir hálfu fjórða ári fjallaði blaðið um það álitamál, og þykir ekki óeðlilegt að rifja upp nokkur orð frá þeirri umræðu nú, því þær skoðanir blaðsins eiga jafnt við nú og þá.
Þeir sem eru andsnúnir ákvörðunum meirihlutans eru engu bættari með að meirihluti þeirra sem mættu á kjörstað í þjóðaratkvæðagreiðslu hafi tekið ákvörðunina en ekki meirihluti á þingi. Það má raunar refsa meirihluta á þingi í næstu þingkosningum með því að kjósa eitthvað annað en meiri hluta þess hluta þjóðarinnar sem tekur þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu verður ekki refsað enda veit enginn hver hann er og engin leið er til að refsa honum eins og stjórnmálamönnum er refsað í almennum kosningum… |
Þeir sem mest tala fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum eða „beinu lýðræði“ eins og þeir nefna það fara oft út í pópúlisma eins og að hinir treysti ekki venjulegu fólki til að taka ákvarðanir. Þeir gleyma hins vegar að hinn almenni maður situr ekki á kaffihúsum daginn út og inn við að spá og spekúlera í hlutina til að reyna að koma sér upp kjaftaviti á hvaða umræðuefni sem er. Fæst venjulegt fólk vill þurfa að setja sig inn í kosti og galla allra mála sem hægt er að deila um á þingi og í sveitarstjórnum, en fólk vill frekar velja fulltrúa sína til að sjá um þá hluti. Og þessa fulltrúa velur flest fólk eftir grundvallaratriðum í lífsskoðun en ekki eftir því hvernig vindar blása í tilteknum froðumálum sem hæst kann að vera látið með hverju sinni. Ef fólk ætti reglulega að greiða atkvæði um alls kyns mál – t.d. um leið og það keypti sér lottómiða – þá yrði fólk, sem ekki hefði tök á að leggjast yfir öll deilumál, að byggja skoðun sína á skyndiskoðun á þeim sjónarmiðum sem hæst hefði borið í umræðunni síðustu dagana fyrir kosningar. Og hverjir ætli hafi nú mestu færin á að hafa áhrif á þá umræðu? Það eru upphlaupapólitíkusar, krossferðaritstjórar og dálkahöfundar blaðanna. Og hverjir ætli séu nú áköfustu talsmenn reglulegra atkvæðagreiðslna um alls kyns mál? |