Hinn viðkunnanlegi danski stórmeistari, Bent Larsen, var í gær sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar fyrir að hafa sigrað Friðrik Ólafsson stórmeistara í skákeinvígi árið 1956. Við það tækifæri tók Ólafur Ragnar Grímsson, stórmeistari hinnar íslensku fálkaorðu, fram að einvígi Friðriks og Larsens væri fyrsti alþjóðlegi viðburðurinn sem hann myndi eftir og var Kóreustríðið sennilega ekki undanskilið. Verður nú margt skiljanlegra. Ólafur hefur fyllst gríðarlegum skákáhuga og sennilega enn verið með hugann í sjómannaskólanum þegar Khrustjov flutti ræðu sína um Stalín í febrúarmánuði 1956 og enn verið að raða upp þegar Sovétmenn réðust inn í Ungverjaland síðar sama ár. Hann hefur því ekki fengið sömu mynd af rás heimsviðburða og aðrir og áralöng barátta hans fyrir varnarleysi Íslands á tímum kalda stríðsins verður nú afsakanlegri.
Með því að klæðast látlausum en smekklegum nærbolum skera vinstrigrænir sig frá persónudýrkunarflokkunum. Myndin er tekin í þvottahúsi ritstjórnar Þjóðviljans. |
Og svo haldið sé áfram á vinstri kantinum þá héldu vinstri grænir landsfund nú um helgina og var Steingrímur J. Sigfússon þar endurkjörinn formaður, þvert á öll líkindi. Munu margir getraunamenn nú naga sig í handarbakið fyrir að hafa ekki veðjað á Steingrím á „lengjunni“, svo hár stuðull sem settur hefur verið á endurkjör hans. Steingrímur flutti stutt og snaggaralegt ávarp á fundinum og tók þar sérstaklega fram að vinstrigrænir hefðu í nýliðinni kosningabaráttu „forðast persónudýrkun“ og væri það ein skýringin á daufu fylgi flokksins, sem Steingrímur virðist ekki telja að tengist stefnu hans eða forystu að neinu verulegu leyti. Fundarmenn munu hafa tekið undir skýringu Steingríms með því að rísa á fætur, allir íklæddir glæsilegum nærbol með mynd af formanninum, en eins og menn vita þá seldu vinstrigrænir slíkan hlífðarfatnað við hvert tækifæri í kosningabaráttunni í vor. Að því búnu var Nallinn sunginn en svo fóru menn heim og fengu sér lummur. Sem voru víst gamlar en kváðu venjast vel.