Þau eru misýtarleg, viðtölin sem birtast í íslenskum dagblöðum. Flest blöð og tímarit birta af og til viðtöl þar sem þekkt persóna segir af sjálfri sér í stikkorðastíl. Eftirlætismatur, besta hljómsveit, fegursta kona, síðustu slagsmál, og svo framvegis. Í nýjasta tölublaði Skessuhorns, vikublaðs á Vesturlandi, er birt slíkt skyndiviðtal við Akurnesinginn Magnús Þór Hafsteinsson sem er nýkjörinn þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi. Svör Magnúsar eru bráðgóð eins og við er að búast og má nefna þrenn af handahófi.
Magnús Þór er spurður hvað hann meti mest í fari annarra, og það eru heiðarleiki og sanngirni. Magnús Þór er spurður hvað fari mest í taugarnar á honum í fari annarra, og það eru undirferli og fals.
Magnús Þór er spurður hver sé hans eftirlætis stjórnmálamaður. Það er Bill Clinton.
Ísumarbyrjun efndi Vefþjóðviljinn til lítillar getraunar og bauð verðlaun fyrir réttust svör. Fjölmargir urðu efstir og jafnir og úr þeim hópi var dregin Guðrún I. Gunnlaugsdóttir í Hafnarfirði og hlaut hún að launum veglegt útigrill sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti.
Þá voru dregnir út 10 þátttakendur, óháð frammistöðu, og hlýtur hver þeirra veglegan konfektkassa til að byggja sig upp fyrir sumarið. Það urðu þessir: Albert Már Steingrímsson Hafnarfirði, Bogi Brimir Árnason Reykjavík, Guðmundur G. Karlsson Grindavík, Halldór E. Guðmundsson Reykjavík, Halldóra Viðarsdóttir Reykjavík, Höskuldur Arason Seltjarnarnesi, Jóhanna Helgadóttir Reykjavík, María Kristín Guðjónsdóttir Kópavogi, Nanna María Elfarsdóttir Hólmavík og Valdimar Valdimarsson Reykjavík.
Vefþjóðviljinn þakkar þeim og öðrum þátttakendum fyrir.