Föstudagur 14. mars 2003

73. tbl. 7. árg.

Á dögunum fjallaði Vefþjóðviljinn um ónákvæmni íslenskra fjölmiðlamanna og hve fullyrðingar þeirra, frásagnir og söguskýringar geta verið hæpnar. Slík dæmi eru fjölmörg svo ekki sé fastar að orði kveðið, en vart virðist svo einfalt mál og auðskilið reka á fjörur íslenskra fréttastofa að ekki takist einhverjum fréttamanni að gefa af því ranga eða að minnsta kosti villandi mynd, hvort sem það er af fljótfærni og vanþekkingu eða af því fréttamaðurinn festist í aukaatriðum en kemur aldrei auga á það sem máli skiptir. Þó gott sé að fréttamenn greini kjarnann frá hisminu þá er lakara ef þeir senda kjarnann aldrei út en fjalla ábúðarmiklir um hismið.

Þegar blað eins og þetta fjallar um vinnubrögð fréttamanna þá er auðvitað hætt við að dæmin sem það tekur séu frekar af stjórnmálasviðinu en öðrum. Á því er hins vegar sá galli að mörgum hættir til að meta slík dæmi eftir því hvernig vinnubrögð fréttamannsins gagnast málstaðnum hverju sinni. Það er því kannski meira vit í því að líta á dæmi af vinnubrögðum fréttamanna í málum sem ekki snerta stjórnmál neitt sérstaklega. Gott og vel, tökum tvö dæmi frá fréttastofu Stöðvar 2 í gærkvöldi. Í gærkvöldi sagði ung og glæsileg fréttakona frá dómi sem kveðinn var upp yfir manni sem ákærður hafði verið og sakfelldur fyrir nauðgun. Sagði í fréttinni réttilega frá því að Hæstiréttur hefði, með fjórum atkvæðum af fimm, dæmt manninn til tveggja ára fangelsisvistar. Sagði svo fréttakonan að einn dómari hefði viljað dæma manninn til eins árs fangelsis þar sem hann, hinn ákærði en ekki dómarinn, hefði hætt við aðgerðir sínar ef svo mætti segja. Ef hins vegar sératkvæðið er lesið þá kemur fram að hæstaréttardómarinn sem greiddi sératkvæðið telur einfaldlega ekki hafa verið sannað að maðurinn hafi framið nauðgun. Engir áverkar hafi sést á stúlkunni sem kærði og ekkert séð á fötum hennar. Þá hafi hún „ekki verið fyllilega samkvæm“ í frásögn sinni og viss mótsögn verið í frásögninni. Hins vegar taldi dómarinn manninn hafa gerst sekan um annað og vægara brot og þess vegna viljað dæma hann til hinnar vægari refsingar.

Í annarri frétt sama kvöld sagði fréttakona stöðvarinnar frá því að ekki hefði verið afgreitt frumvarp til laga sem hefði heimilað nokkrum tilteknum skólum sem munu starfa á svokölluðu háskólastigi að útskrifa nemendur sem fengið gætu réttindi til lögmannsstarfa. Gat fréttakonan þess að samkvæmt núgildandi lögum hefði Háskóli Íslands einn slíka heimild. Það er að vísu rétt hjá henni að því leyti að Háskóla Íslands er eins háskóla getið í lögmannalögum og próf frá honum eitt margra skilyrða lögmannsréttinda. Hins vegar er einnig tekið fram í lögunum að leggja megi að jöfnu próf úr öðrum skóla ef sérstök nefnd metur slíkt próf jafngilt prófi úr lagadeild Háskóla Íslands. Þó staða Háskóla Íslands og þeirra stofnana sem nú nýlega hafa hafið lögfræðikennslu – eða víst einkum kennslu í „viðskiptalögfræði“ – sé vissulega ólík, og skiljanlegt að hinir nýju skólar vilji að hún verði jöfnuð, þá gaf lýsing fréttakonunnar ekki alveg nákvæma mynd af gildandi lögum. Staða nemenda lagadeildar Háskóla Íslands er augljóslega betri en hinna þar sem lagadeildarmenn þurfa ekki að spyrja kóng eða prest um sitt próf, það þykir einfaldlega gott og gilt, en sérstök nefnd þarf að kveða upp úr með það hvort aðrar deildir eru í raun að kenna nægilega mikla lögfræði. Það er því skiljanlegt að nýju skólarnir vilji að staðan verði jöfnuð. En þegar alþingismenn munu ræða þá lagabreytingu þá er sjálfsagt að menn ræði einnig hvort yfirleitt á að gera kröfur um nokkurt tiltekið próf. Hvort hverjum og einum á ekki bara að vera frjálst að taka að sér málflutning fyrir pétur og pál; það er að segja, hvort pétur og páll megi ekki bara fela hverjum sem þeim sýnist að reka sín erindi.