Laugardagur 15. mars 2003

74. tbl. 7. árg.

Rannveig Guðmundsdóttir fékk í fyrradag ýtarleg svör frá fjármálaráðherra um skattbyrði einstakra hópa í þjóðfélaginu, meðal annars sundurliðað eftir hlutfallslegum tekjum. Auk annars kemur þar fram hvernig skattbyrði hópanna hefði breyst ef persónuafsláttur hefði verið hærri og ef tekjuskattshlutfallið hefði verið lægra. Þessar spurningar og svörin við þeim eru út af fyrir sig fróðleg gögn til að hafa til hliðsjónar þegar rætt er um skattkerfið og hugsanlegar breytingar á því, en þó og því aðeins að menn átti sig á því hvaða ályktanir má draga af svörunum – og ekki síður hvaða ályktanir er ekki hægt að draga af þeim.

COOLIDGE
„Skynsamleg og rétt stefna í skattheimtu og annarri löggjöf um efnahagsmál er að kippa ekki fótunum undan þeim sem hafa þegar náð árangri, heldur að skapa aðstæður þar sem allir eiga betri möguleika að ná árangri.“ Calvin Coolidge forseti Bandaríkjanna

Gallinn við svörin við slíkum spurningum er að þau er auðvelt að rangtúlka og misskilja. Líklegasti misskilningurinn í þessu sambandi er í fyrsta lagi að halda að svörin gefi rétta mynd af því hvað hefði gerst ef forsendur hefðu verið með þeim hætti sem spurt er um. Annar misskilningur, sem leiðir af hinum fyrri, er að ímynda sér að af svörunum megi draga ályktanir af því hvernig skattbyrði myndi þróast ef farið yrði út í tilteknar aðgerðir. Þessi misskilningur stafar af því að það vill stundum gleymast – jafnaðarmenn vilja til dæmis ólmir gleyma því – að skattgreiðendur eru ekki viljalaus verkfæri skattheimtumanna. Skattgreiðendur breyta hegðun sinni eftir því sem skattkerfið breytist, til dæmis með því að draga úr vinnu ef skatthlutfall hækkar, með því að vinna „svart“ eins og það er kallað og með því að eyða meira fé og fyrirhöfn í gerð skattframtala sinna til að nýta smugur betur. Öll þessi hegðun er óhagkvæm og getur bæði dregið úr skatttekjum og hagvexti, en hún er ekki sýnileg í einföldum útreikningum á því hvað gerist ef skatthlutfalli er breytt.

Gott dæmi um þetta má finna í skattkerfisbreytingum á þriðja áratug síðustu aldar í Bandaríkjunum. Þá beittu Warren Harding og Calvin Coolidge Bandaríkjaforsetar sér fyrir því að skatthlutfall væri lækkað og miðað við hefðbundna útreikninga hefðu heildarskatttekjur átt að minnka og skattbyrðin að dragast mest saman hjá þeim sem höfðu hæstu launin. Niðurstaðan varð þó allt önnur. Skattgreiðslur hinna hæst launuðu margfölduðust þegar skatthlutfall þeirra var lækkað umtalsvert og eftir að heildarskatttekjur drógust saman fyrst í stað jukust þær fljótlega aftur og urðu meiri en þær höfðu verið fyrir skattalækkun. Ástæðan var sú að hagvöxtur tók vel við sér, tekjur allra hópa hækkuðu mikið og þeim fjölgaði sem höfðu hæstu tekjurnar og greiddu þar með hæstu skattana.