Undir lok síðasta árs urðu ákveðin tímamót í íslenskri stjórnmálasögu. Þá gerðist það í fyrsta skipti í 33 ár – aldarþriðjung – að efnt var til opinberrar kosningar á Íslandi án þess að umræða væri sett í gang þess efnis að meðal almennra kjósenda, „fólksins“ eins og það er yfirleitt orðað, væri sterk krafa um framboð Ellerts Schrams, helst í 1. sæti. Hér er að sjálfsögðu um að ræða endurtekningu bæjarstjórnarkosningarinnar í Borgarnesi en þrátt fyrir að eflaust hafi í raun verið sterk undiralda með Ellerti í þeim kosningum þá virðist hún aldrei hafa náð inn í fjölmiðlana, sem þó eru yfirleitt ótrúlega naskir á fréttir af stuðningi við Ellert Schram.
„Samkvæmt áreiðanlegum heimildum á ritstjórn DV er mikill áhugi fyrir því innan sameiginlegrar nefndar sveitarfélaganna í Eyjafirði að stefna að sameiningu sveitarfélaganna og Ellerts Schrams og er mál manna að gengið verði til kosningar um sameiningartillöguna nú á útmánuðum.“ |
Í öllum borgarstjórnarkosningum fram að tilkomu R-listans var því haldið að reykvískum sjálfstæðismönnum að sennilega hefðu þeir aðeins tvo kosti. Annað hvort gerðu þeir Ellert Schram að borgarstjóraefni sínu eða lytu í lægra haldi fyrir sérframboði Ellerts. Og ekki aðeins voru þessir afarkostir gerðir í kosningum, jafnvel milli kosninga skaut sú hugmynd upp kollinum, svo sem í laugardagsgreinum Ellerts Schrams í DV, að gera nú Ellert Schram að borgarstjóra. Reyndar var DV árum saman einn fjölmiðla um að halda úti sérstökum greinaflokki um Ellert Schram en blaðið hafði þann sið að birta á hverjum laugardegi heilsíðugrein á leiðaraopnu sem ekki fjallaði um annað en Ellert Schram. Og svo mikla áherslu lagði blaðið á þetta að það fól öðrum ritstjóra sínum þetta mikilvæga verkefni.
Í hvert sinn sem leið að kjöri forseta Íslands og ekki var endanlega ljóst að sitjandi forseti myndi gefa kost á sér til endurkjörs, birtust fréttir af því að mikið væri skorað á Ellert Schram að gefa nú kost á sér. Ef fyrir lá að formaður Sjálfstæðisflokksins myndi ekki leita endurkjörs á landsfundi bárust samskonar fréttir; mikið væri rætt um það að Ellert Schram gæti orðið sú málamiðlun sem allir gætu sætt sig við. Í raun og veru er furðulegt að nafn Ellerts Schrams hafi ekki borið hærra í þeirri bylgju kosninga um sameiningu sveitarfélaga sem reið yfir hér um árið. Slík frétt hefði orðið alveg í stíl við allar hinar: „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum á ritstjórn DV er mikill áhugi fyrir því innan sameiginlegrar nefndar sveitarfélaganna í Eyjafirði að stefna að sameiningu sveitarfélaganna og Ellerts Schrams og er mál manna að gengið verði til kosningar um sameiningartillöguna nú á útmánuðum. Ef tillagan verður samþykkt, eins og búist er við, munu Akureyrarkaupstaður, Arnarneshreppur, Glæsibæjarhreppur, Skriðuhreppur, Öxnadalshreppur og Ellert Schram sameinast að loknum sveitarstjórnarkosningum í vor. Ekkert er endanlega ákveðið um fyrsta bæjarstjóra hins nýja sveitarfélags en samkvæmt heimildum blaðsins er mikið rætt um að reynt verði að fá Ellert Schram til að taka starfið að sér. Einnig hefur nafn Eggerts Haukdals heyrst nefnt.“
En það fór þó aldrei svo að framboðsfréttir Ellerts til áratuga skiluðu ekki árangri. Ellerti hefur nú verið boðið sjötta sæti á lista Samfylkingarinnar í öðru Reykjavíkurkjördæminu og hann hefur þegið það sæti. Eins og menn muna hafði Ellert áður lýst því yfir að ekkert annað en fimmta sætið kæmi til greina, en um leið og Samfylkingin dró fram vöndinn kyssti Ellert hann og settist í sjötta sætið. Sem er umhugsunarvert, því hann hefur ítrekað haldið því fram að ein af ástæðum þess að hann ákvað að fara í framboð fyrir Samfylkinguna væri að hann vildi ekki kyssa vöndinn í öðrum flokki. Hann hefur að vísu aldrei nokkurn tímann séð ástæðu til að útskýra hvað hann á við, en Ellert Schram þarf heldur ekkert að útskýra því hann er enginn venjulegur maður. Það vita þeir sem lesið hafa hugleiðingar hans. Og af því Ellerti verður tíðrætt um að kyssa ekki vendi í greinum sínum til rökstuðnings því að fara í framboð nú, má nefna að það er ekki aðeins Ellert sjálfur sem fékk að kyssa vönd Samfylkingarinnar við uppstillingu á lista hennar nú. Eiríkur Bergmann Einarsson hafði, eins og hann hefur greint frá sjálfur, þegar í desember þegið það sæti á listanum sem Ellert situr í nú. Hann var hins vegar neyddur til að lækka niður í sjöunda sæti listans þegar Ellerti var bætt á listann, og hafa Eiríkur og nokkrir samflokksmenn hans lýst megnri óánægju með þessa framkomu forystu Samfylkingarinnar. En allt kom fyrir ekki og þeir kysstu vöndinn í hinum lýðræðislega og nútímalega flokki þar sem fólkið ræður.
Ýmsum virðist hafa komið á óvart að Ellerti Schram skyldi vera boðið að fara í framboð fyrir Samfylkinguna. Og sumum – þeir eru þó sennilega færri – virðist hafa komið á óvart að hann skyldi fallast á boðið. Hvorugt ætti þó að valda nokkurri undrun, því Ellert og Samfylkingin falla eins og flís við rass. Samfylkingin er og ætlar áfram að vera upphlaupsflokkur og leggja allt traust sitt á fjölmiðlauppákomur og stundaræsing. Flokkurinn vill með öðrum orðum, frekar vera bóla en stjórnmálaflokkur. Og þar sem Ellert hefur lítið á móti fjölmiðlafári í kringum sjálfan sig er þetta hjónaband sem hlýtur að heppnast. Að minnsta kosti alveg þangað til annað hvort flokkurinn eða Ellert finna sér nýjan rekkjunaut. Og það er nokkuð sem gæti dregist von úr viti, jafnvel dögum saman.