Helgarsprokið 6. október 2002

279. tbl. 6. árg.

Sænsk stjórnvöld hafa verið betur þekkt fyrir ýmislegt annað en ást sína á einkaframtakinu. Í sumum málaflokkum hefur Svíþjóð jafnvel náð að verða andlit ríkisrekstrar og miðstýringar. Heilbrigðismál eru dæmi um þetta og í langan tíma hafa Íslendingar keypt hugmyndir Svía um heilbrigðisþjónustu og fetað í fótspor þeirra í þeim rekstri.

Nú er hins vegar svo komið að Svíar hafa fengið að kenna á útfærslu sinni á sósíalisma í heilbrigðisþjónustu. Í Svíþjóð hafa menn glímt við vanda í heilbrigðiskerfinu í áratugi. Í Stokkhólmi, og nágrenni, hefur verið tekið á þeim vanda og frá 1990 hefur þar kveðið við annan tón en áður hefur þekkst.

Sænska rannsóknar- og hugmyndastofnunin Timbro heldur úti sérstakri deild um rannsóknir á rekstri heilbrigðisþjónustu. Johan Hjertqvist forstöðumaður deildarinnar talaði á dögunum á fundi Sænsk-íslenska verslunarráðsins og kynnti þær breytingar sem orðið hafa í Stokkhólmi. Í bók sinni um efnið, The Health Care Revolution in Stockholm, er lýsir hann líka ástæðum þess að Stokkhólmsbúar ákváðu að losa sig undan viðjum miðstýringar hins sósíalíska rekstrar í heilbrigðisþjónustunni. Það er áhugavert, en ætti auðvitað ekki að koma á óvart, að vandi Svía er í engu frábrugðin þeim vanda sem mönnum svíður undan hér á Íslandi og hefur verið til umræðu reglulega í mörg ár, gjarnan á haustin þegar fjárlagafrumvarpið er lagt fram.

Á 8. og 9. áratugnum jukust útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála í Svíþjóð jafnt og þétt, rétt eins og hér á landi. Og eins og á Íslandi jukust biðlistar, að því er virtist í réttu hlutfalli við aukningu útgjalda. Árið 1983 var svo í fyrsta sinn í Svíþjóð gerður samningur við einkaaðila um rekstur heilbrigðisþjónustu og einkarekin heilsugæsla var opnuð í Stokkhólmi. Árangur þessarar heilsugæslu og ánægja neytenda var með þeim hætti að borgarráð Stokkhólms sá ekki ástæðu til annars en að halda áfram á braut einkaframkvæmdar. Æ fleiri verk voru boðin út og spítölum breytt í hlutafélög með það að markmiði að láta stjórn þeirra og rekstur lúta eðlilegum kröfum viðskiptalífsins um framleiðni og ráðdeild í rekstri. Rétt er að taka fram hér, svo sósíalískir lesendur Vefþjóðviljans þurfi ekki að froðufella, að einkaframkvæmd þessi í Svíþjóð felur í sér að sænskir ríkisborgarar geta eftir sem áður reitt sig á fjárhagsaðstoð hins opinbera vegna læknisþjónustu. Ríkið hefur hins vegar fært reksturinn til einkaaðila en fjármagnar hvert læknisverk fyrir sig.

Þrátt fyrir stjórnarskipti í Stokkhólmsráðinu nokkrum sinnum hafa þessar breytingar ekki verið í hættu fyrir gerræði stjórnmálamanna sem gjarnan nota heilbrigðismál í lýðskrumi kosningabaráttunnar. Einkaframkvæmd í heilbrigðisþjónustu virðist hafa fest sig í sessi í Stokkhólmi og fleiri héruð Svíþjóðar líta þangað um lausn vanda í sinni byggð. Enda hafa afköst í Stokkhólmi aukist um 13%, biðlistar styst og starfsfólk almennt ánægðara í starfi.

Það er ekkert sem bendir til þess að hér á Íslandi sé ekki hægt með sama hætti og í Stokkhólmi að innleiða samkeppni og kosti einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustu. Það væri svo sem ekkert nýtt hér á landi. Elliheimili, tannlæknaþjónusta og sjúkraþjálfun eru dæmi um einkaframtak sem hefur reynst vel í áranna rás. Hver hefur heyrt um biðlista vegna tannlæknaþjónustu? Og hvar væru margir þeir eldri borgara sem nú dvelja á heimilum sem rekin eru af sjálfseignarstofnunum ef þeir framsýnu menn sem í upphafi 20. aldarinnar hófu rekstur elliheimila hefðu ekki tekið af skarið og látið sem vind um eyra þjóta málflutning þeirra sem telja hið opinbera almáttugt? Það er löngu tímabært að starfsfólk í öðrum greinum heilbrigðisþjónustu fái tækifæri til að betrumbæta það kerfi sem nú er við lýði.