Hver vill ekki að allir íbúar jarðar hafi aðgang að drykkjarhæfu vatni, nægum mat, læknishjálp og menntun? Hver vill ekki að gengið sé sæmilega um náttúru jarðar? Líklega er leitun að þeim manni, a.m.k. þeim sem viðurkennir að hafa sóðaskap, sult og seyru á stefnuskrá sinni. Engu að síður hafa um 60 þúsund manns ákveðið að safnast saman í Jóhannesarborg þessa dagana og styrkja hver annan í trúnni; þeir vilja öllum vel. Sambærileg sáluhjálparráðstefna hefur ekki verið haldin í tíu ár eða frá því sama lið mætti til Ríó árið 1992 og samþykkti að allir eigi að hafa í sig og á og ekki megi menga.
Ráðstefnan með öllu sem henni fylgir kostar tugi milljarða króna. Um 60 þúsund ráðstefnugestir fljúga yfir að meðtaltali yfir hálfan hnöttinn með tilheyrandi mengun sem enginn minnist á. Það er svo sérstaklega nöturlegt að hún er haldin í Suður-Afríku þar sem næg tilefni eru til að eyða milljörðum króna – í eitthvað annað en veisluhöld umhverfisverndarmanna. Í suðurhluta Afríku eru milljónir manna í lífshættu vegna vannæringar. Það er þó ekki matarskortur í heiminum sem veldur. Aldrei hafa verið framleiddar fleiri hitaeiningar á hvern íbúa jarðar en einmitt nú. Sultur í heiminum skrifast á reikning stríðsátaka og sósíalísks stjórnarfars. Robert Mugabe forseti ríkis sem hann kallar Zimbabve hefur til dæmis þjóðnýtt ræktarland hvítra manna og deilt því út til manna sem kunna ekki á landbúnað, m.a. til konu sinnar. Ræktun hefur því dregist saman með skelfilegum afleiðingum.
Evrópusambandið neitar sem fyrr að opna markaði sína fyrir landbúnaðarafurðum þróunarlandanna enda er sambandið sem fyrr helsti andstæðingur frjálsra viðskipta í heiminum. Bændur í þróunarlöndunum eiga því erfitt með að afla tekna til að bæta tækjakost og aðrar aðstæður til frekari framleiðslu. ESB hefur jafnvel hótað þróunarlöndum auknum viðskiptahömlum ef þau þiggja korngjafir frá Bandaríkjunum en hluti bandaríska kornsins er erfðabætt. Þetta er sama korn og etið er með bestu lyst í Bandaríkjunum og engar vísbeningar eru um skaðleg áhrif þess. Stjórnvöld nokkurra Afríkuríkja, til dæmis Robert Mugabe, hafa því afþakkað matarsendingar frá Bandaríkjunum en Bandaríkin hafa þegar lagt fram helming þess korns sem þarf til að forðast hungurmál í sunnanverðri Afríku næsta árið.