Stundum mætti ætla af umræðunni og atlögum stjórnvalda að bíleigendum að bíllinn sé nánast eina uppspretta gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Bílafloti Íslendinga losar þó vel innan við 1 milljón tonna CO2 á ári. Það eru um 6% af heildarlosun Íslands.
Vegna þessarar losunar frá ökutækjum (fólksbílar, rútur, flutningabílar, strætó) hafa stjórnvöld ráðist í mikla neyslustýringu á bílum og eldsneyti. Til dæmis um stýringuna er sú ákvörðun frá árinu 2009 að beita skattkerfinu til að ýta fólki úr bensínbílum yfir á dýrari og meira sótmengandi Dieselbíla. Bíleigendur sjá að mestu leyti um að greiða kolefnistengd gjöld þótt hlutdeild þeirra í losun sé lítil. Vel búnir og öruggir bílar eru skattlagðir mest. Milljarðar króna streyma svo úr landi á hverju ári til framleiðenda pálmaolíu og annars lífeldsneytis. Flest eru þessi uppátæki að forskrift ESB.
Þó má öllum vera ljóst að þessi losun frá bílum mun smám saman hverfa með þeirri þróun sem á sér stað í bílaframleiðslu. Áður en það gerist að fullu vilja afskiptasamir stjórnmálamenn fá útrás fyrir forsjárhyggju sína, helst fullnægju.
Útblástur og kjarnorkuúrgangur fluttur heim
Á sama tíma og stjórnvöld hundelta bíleigendur vegna losunar selja þau úr landi upprunaábyrgðir á raforku. Það er einnig gert samkvæmt regluverki ESB. Sambandið hefur ákveðið að hægt sé að falsa uppruna orku gegn greiðslu. Við furðu lostnum raforkukaupendum hér á landi blasa þær staðhæfingar á rafmagnsreikningum að stór hluti raforkunnar sé framleiddur með bruna olíu, kola og gass. Það hafi í för með sér tiltekna losun CO2 á hverja kWh sem hér er framleidd. Að ógleymdum vænum skammti af kjarnorkuúrgangi.
Þessi sala upprunaábyrgða hefur því í för með sér að Ísland tekur á sig um 9 milljónir tonna af CO2 útblæstri á ári vegna framleiðslu 19,2 ma. kWh af raforku á ári (2017).
Með annarri hendinni eru stjórnvöld í dýrri herferð gegn bíleigendum sem losa 1 milljón tonna á ári. Með hinni hendinni klína þau árlega á Íslendinga 9 milljóna tonna útblæstri frá ESB með sölu upprunavottorða. Af þessum aðgerðum til samans tapar Ísland svo milljörðum króna á ári í erlendri mynt. Mengunin heim, milljarðar út.
Á við útblástur frá bílaflota Ungverja
Þessi 9 milljóna tonna losun sem flutt er hingað heim með sölu upprunavottorðanna er á við útblástur frá 3 milljónum fólksbíla. Það er eins og bílafloti Ungverjalands hafi verið fluttur til Íslands.