Kannanir benda enn til þess að Píratar, VG og Samfylking eigi möguleika á að mynda ríkisstjórn að loknum kosningum um næstu helgi.
Þeim sem hugnast ekki slík stjórn en hafa til dæmis gælt við að kjósa Flokk fólksins eða Viðreisn hljóta nú að íhuga það alvarlega hvort réttmætt sé að kasta atkvæði á flokka sem óvíst er að nái kjöri. Kannanir benda til að atkvæði greidd Viðreisn og Flokki fólksins geti fallið dauð.
VG, Samfylking og Píratar hafa mjög ákveðna stefnu í nokkrum málum.
VG hefur boðað mjög skýrt að ríkisútgjöldin verði hækkuð varanlega um 70 milljarða króna á ári fyrir lok kjörtímabilsins. Til að fjármagna þessa útgjaldaaukningu þarf að innheimta 1 milljón króna til viðbótar í skatt af hverju mannsbarni í landinu. Ekki verður séð að Samfylking og Píratar verði fyrirstaða í þessu því útgjaldastefna þeirra er mjög í áttina að stefnu VG.
Samfylkingin er sem fyrr með ESB aðild sem helsta stefnumál og eins og menn kynntust um árið er yfirlýst stefna VG í þeim málum engin fyrir staða.
Þótt gleymst hafi að spyrja þjóðina síðast þegar Samfylking og VG sóttu um aðild að ESB fyrir hönd Íslendinga verður málið fyrst og fremst kynnt þannig nú að menn eigi ekki að vera hræddir við að spyrja þjóðina. Og ef það er einhvers staðar sagt þjóðaratkvæðagreiðsla þá fagna Píratar. Það sparar þeim að taka efnislega afstöðu til málsins og þar með hjásetu númer fjögurþúsund í þingsal. Því verður spurt í þjóðaratkvæðagreiðslu:
Vilt þú að nefnd undir forystu Svavars Gestssonar aðlagi Ísland að ESB með glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur? Ertu ekki orðinn leiður á að hafa þetta hangandi yfir þér?
Hvaða mál koma svo Píratar með að ríkisstjórnarborðinu? Nú auðvitað „nýju“ stjórnarskránna. Yfirvarpið er að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hafi valdið hinu alþjóðlega fjármálahruni 2008. Hinn raunverulegi tilgangur er að ryðja úr vegi stjórnarskrárbundnum hindrunum fyrir framsali löggjafarvalds til Brussel.