Í maí 2017 neitaði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra að skrifa undir uppreist æru dæmds kynferðisbrotamanns.
Þetta gerði Sigríður að eigin frumkvæði áður en opinber umræða varð um einstök mál frá tíð fyrri ríkisstjórna. Engum hefur því verið veitt uppreist æra í ráðherratíð Sigríðar.
Um leið og hún stöðvaði vélræna afgreiðslu slíkra mála til áratuga hóf hún vinnu við endurskoðun á lögum sem lúta að uppreist æru.
Sigríður er fyrsti dómsmálaráðherrann sem neitar alfarið að skrifa undir uppreist æru og hefur um leið vinnu við að afnema þessi lagaákvæði frá 1940.
Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar kom fram að dómsmálaráðherra muni leggja fram frumvarp um afnám reglna um uppreist æru í haust. Vonandi fær þetta mál dómsmálaráðherrans framgang með einhverjum hætti því það virðist góður stuðningur við það í öllum flokkum.
Enda er það rétt hjá Sigríði að það er fráleit hugmynd að ríkisvaldið geti reist upp æru manna með pennastriki. Það verða brotamenn sjálfir að gera með iðrun og góðri breytni.