Eins og nokkrum sinnum áður hefur Vefþjóðviljinn tekið saman nokkur atriði sem ekki ættu að hverfa með árinu inn í aldanna skaut.
Gagnsókn ársins: Samfylkingin skipti um formann í ofboði. Við tók Oddný Harðardóttir.
Aðhald ársins: Stjórnvöld tilkynntu spítölunum að ef þeir teldu sig þurfa að skera niður eða segja upp fólki á næsta ári, þrátt fyrir stórauknar fjárveitingar, fengju þeir aukafjárveitingu um leið.
Endurræsingarmenn ársins: Píratar reyndust allir andvígir því að endurskipuleggja lífeyriskerfi landsmanna og jafna réttindin.
Hugmyndaauðgi ársins: Engum dettur í hug að jafna lífeyrisréttindin með því að gera lífeyrissparnað frjálsan.
Fréttir ársins: Birgitta Jónsdóttir sagði, þegar stjórnarmyndunarviðræður sem hún leiddi sjálf fóru út um þúfur, að nú færi þingið með völdin og fyrir þingræðisfólk eins og Pírata væru það „frábærar fréttir“.
Hlaðborð ársins: Smári McCarthy sagði, þegar hann var á fullu í stjórnarmyndunarviðræðum, að hann væri „búinn að vera að skoða tekjuöflunartillögur allra flokka og svona hvar væri hægt að nálgast peninga og það sem ég sé í því er að bara ef ég má kalla það hlaðborð sem þarf bara að velja úr.“
Niðurskurður ársins: Þingmenn Bjartrar framtíðar, sem margir væru reiðubúnir að mynda stjórn með, ákváðu að skera möguleika sína til áhrifa niður, með því að sameinast Viðreisn, sem fáir vilja mynda stjórn með. Augljóst er hvað Viðreisn fær út úr þessu hjónabandi, en veit einhver hvað Björt framtíð fær?
Þingrjúfari ársins: Stjórnarflokkarnir ákváðu að færa þingrofsréttinn úr forsætisráðuneytinu út á Austurvöll.
Hæfni ársins: Að mati Önnu Lilju Þórisdóttur blaðamanns Morgunblaðsins var Hillary Clinton „hæfasti frambjóðandi sem nokkru sinni hefur boðið sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna.“
Enginn ársins: Þingmannafjöldi Samfylkingarinnar úr kjördæmum þar sem eru sveitarfélögin Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Garðabær og Seltjarnarnes, alls um 160.000 kjósendur.
Bráðaaðgerð ársins: Vikum saman sýndu skoðanakannanir að fjórir vinstriflokkar myndu líklega fá ríflegan þingmeirihluta. Píratar efndu þá til fundahalda forystumanna þessara flokka og var kjósendum sagt frá fundahöldunum. Tugþúsundir kjósenda sáu að sér um leið.
Hlutgerving ársins: Vinstrigrænir sendu frá sér kosningamyndband þar sem nakin kona dansaði um. Líklega hefðu femínistar ekki orðið ánægðir ef myndbandið hefði komið frá SUS.
Umboðsmaður ársins: Eftir kosningar sagðist Sigurður Ingi Jóhannsson ætla til Bessastaða til að „skila umboðinu“. Enginn fréttamaður spurði hvaða umboði.
Fjáröflun ársins: Flokkur fólksins fékk engan mann kjörinn á þing en getur fengið um 40 milljóna króna verðlaun úr ríkissjóði fyrir atkvæðin sem hann náði.
Athugunarleysi ársins: Tveimur vikum fyrir kosningar mældi Gallup Íslensku þjóðfylkinguna með 3,2% fylgi og þingsæti voru vel möguleg ef endaspretturinn yrði öflugur. Þá kom í ljós að í stærstu kjördæmunum virtist flokkurinn hafa ruglast og haldið að hann þyrfti að safna mótmælendum en ekki meðmælendum.
Stefna ársins: Skoðanakannanir sýndu lítið fylgi Samfylkingarinnar. Oddný Harðardóttir lýsti mikilli furðu á því vegna þess að Samfylkingin hefði „bestu stefnu í heimi“.
Endurskoðun ársins: Eftir kosningar sagði Oddný Harðardóttir að Samfylkingin þyrfti að endurskoða stefnu sína. Þá bestu í heimi.
Verðskuldun ársins: Evrópusinnar í Sjálfstæðisflokknum héldu flokknum í gíslingu árum saman. Rufu samninga, auglýstu gegn flokknum, grófu undan honum og klufu hann loks skömmu fyrir þingkosningar. Að launum vilja þeir stjórnarsamstarf og ráðherrasæti.
Rannsóknarmenn ársins: Fréttastofa Ríkisútvarpsins komst á snoðir um að þingmaður einn hefði ekki mætt á þingfundi nýverið. Því hefðu aðeins 62 þingmenn setið fundina. Hann var því tekinn í yfirheyrslu.
Kosningaloforð ársins: Samfylkingin lagði til að húsnæðiskaupendur gætu fengið vaxtabæturnar fyrirfram til að nota í útborgun nýrrar íbúðar. Ekki fylgdi sögunni hvernig fólkið átti svo að ráða við vexti og afborganir, svona ef vaxtabætur eru í raun nauðsynlegar til þess.
Sjálfshól ársins: Samfelld hátíðarhöld Ríkissjónvarpsins vegna eigin 50 ára afmælis. Tuttugu ára einkarétti og tugmilljarða framlögum skattgreiðenda skattgreiðenda var ekki sérstaklega þakkað.
Afrek ársins: Yfirgnæfandi stuðningur er við það á þingi að Reykjavíkurflugvöllur verði rekinn áfram með þremur flugbrautum. Samt tókst andstæðingum flugvallarins að fá „neyðarbrautinni“ lokað. Ef þingmenn taka ekki í taumana gæti lokunin orðið varanleg.
Stuðningur ársins: Íslenskir fjölmiðlar slógu því upp þegar þau óvæntu tíðindi urðu að „stórblaðið New York Times“ lýsti yfir stuðningi við Hillary Clinton. „Stórblaðið New York Times“ hefur í hverjum einustu forsetakosningum eftir árið 1956 lýst stuðningi við frambjóðanda demókrata. Og alltaf þykir íslenskum vinstrimönnum jafn fréttnæmt þegar bandarísku vinstrimennirnir segja sama hlutinn.
Kynáttun ársins: Samfylkingin sendi út fréttatilkynningu um framboðslista sína í kosningunum. Í sérstökum dálki aftan við nafn hvers og eins var tekið fram af hvaða kyni hann væri.
Afhroð ársins: Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík náðu 5 karlar en 4 konur ekki í 6 efstu sætin. Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi náðu 5 karlar og 1 kona ekki í 5 efstu sætin. Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi náðu 5 karlar og 1 kona ekki í 4 efstu sætin. Landssamband sjálfstæðiskarla krafðist aðgerða.
Fundarauglýsandi ársins: Íslenska þjóðfylkingin boðaði til útifundar til að mótmæla nýsamþykktum lögum um útlendinga. Fáir hefðu frétt af fundinum ef Sema Erla Serdar, formaður Samfylkingarfélags Kópavogs, hefði ekki boðað til mótmælafundar gegn fundinum, á sama stað og sama tíma.
Samningamenn ársins: Ráðherrum tókst með hörku að fá forstjóra íþróttafélaganna til að skrifa undir samning um 1500% aukningu ríkisframlaga til „afreksíþrótta“.
Hneyksli ársins: Utanríkisráðherra Þýskalands sagði það vera hneyksli að Boris Johnson hefði leyft sér að spila krikket daginn eftir Brexit-kosninguna. Enginn spurði ráðherrann hvað óbreytti þingmaðurinn Johnson hefði átt að gera þennan dag. Enda þykir fréttamönnum Boris Johnson umdeildur og óábyrgur en utanríkisráðherra Þýskalands, sem auðvitað er bæði krati og ESB-sinni, mjög ábyrgur maður.
Afsagnarskilningur ársins: David Cameron forsætisráðherra Bretlands sagði af sér daginn eftir Brexit-kosninguna. Katrín Jakobsdóttir sagði afsögnina ekki koma á óvart. Sjálf sat Katrín í ríkisstjórn sem tapaði tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum. Engum ráðherra í þeirri ríkisstjórn datt í hug að segja af sér.
Mótframboð ársins: Í ótal félögum sitja forystumenn áratugum saman. Leiðtogar verkalýðsfélaganna eru allir endurkjörnir mótframboðslaust. En í einu félagi hafa hlutirnir gengið svo svakalega síðasta árið að þar eru þegar komnir tveir mótframbjóðendur gegn formanninum. Þetta er að sjálfsögðu Knattspyrnusamband Íslands.
Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.
Nákvæmni ársins: Í einu Evrópulandi gættu fjölmiðlamenn þess vandlega allan tímann sem þeir sögðu frá Evrópumótinu í knattspyrnu, að taka fram að átt væri við Evrópumótið í knattspyrnu karla. Þetta kom í veg fyrir misskilning sem ella hefði orðið.
Formannsframbjóðandi ársins: Magnús Orri Schram bauð sig fram til formennsku í Samfylkingunni. Hann sagðist vilja leggja flokkinn niður og stofna nýjan. Sá nýi ætti að hafa skrifstofu á jarðhæð.
Skelfing ársins: Tekið var upp gjald inn á bílastæði á Þingvöllum. Ríkissjónvarpið fann íslenskan gest sem í stuttu viðtali notaði tvívegis orðið „skelfilegt“ um gjaldtökuna. Hann bætti við að Íslendingar hefðu „í árþúsundir“ komist ókeypis til Þingvalla en nú hefði hann orðið að borga inn á bílastæðin.
Mótmælendur ársins: Nokkrir náttúruvænir mótmælendur komu saman við hús eins ráðherrans. Þar hlóðu þeir sér eldstæði á nokkuð grónu ósnortnu landi. Á hlóðirnar lögðu þeir einnota grill úr áli. Kveiktu svo upp í kolum, tóku pulsur úr einnota plastumbúðum og settu á grillið, til þess eins að eyðileggja þær.
Tilraun ársins: Reykjavíkurborg efndi til spennandi tilraunaverkefnis sem snerist um að starfsmönnum nokkurra borgarstofnana var boðið að vinna skemmri vinnudag án þess að laun þeirra skertust neitt. Þær ótrúlegu niðurstöður urðu, að starfsmennirnir voru almennt ánægðir með þetta.
Klukka ársins: Einar og aftur Einar.
Sanngirni ársins: Eftir kosningar sagðist Katrín Jakobsdóttir vilja fá umboð til stjórnarmyndunar. Benedikt Proppé lagði til að Benedikt Jóhannesson fengi umboðið. Forseti veitti Bjarna Benediktssyni umboðið og sagði að allir sanngirnir menn hlytu að sjá að það hefði verið það eina rétta.
Þingrjúfendur ársins: Formenn stjórnarandstöðuflokkanna lögðu fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina og þingrof. Daginn eftir fögnuðu þeir mjög, þegar forseti Íslands sagðist hafa neitað tillögu þáverandi forsætisráðherra um þingrof. Eftir þetta urðu þeir aftur miklir stuðningsmenn þingrofs. Þeir vildu þingrof allt árið, nema daginn sem þeir töldu Sigmund Davíð vilja þingrof.
Trymbill ársins: Vilhjálmi Þorsteinssyni ofbauð að ráðamenn skyldu tengjast aflandsfélögum og fór niður á Austurvöll og barði í tunnu.
Dauðyfli ársins: Guðmundur Benediktsson sá ekkert merkilegt við sigur Íslands á Austurríki.
Líkur ársins: Birgitta Jónsdóttir sagði að 90% líkur væru á því að hún gæti mynduð yrði fimm flokka vinstristjórn.
Valdaræningjar ársins: Leiðtogar Pírata að ríkisstjórnin fremdi „valdarán“ ef hún stytti ekki kjörtímabilið og efndi til kosninga.
Glerþak ársins: Fresta varð aðalfundi VÍS því ekki voru nægilega margir karlar í framboði til stjórnar. Allt stefndi í að konur yrðu 80% stjórnarmanna. Það er bannað samkvæmt lögum um kynjakvóta. Eftir frestunina tókst að fá fleiri karla í stjórnina og færri konur.
Bergþórshvoll ársins: Jón Baldvin Hannibalsson sagði að það að ganga í Evrópusambandið væri eins og ganga inn í brennandi hús. Enn er samt varla hægt að mynda ríkisstjórn vegna þráhyggjunnar um ESB.
Sinnuleysi ársins: Kona nokkur boðaði til mótmæla við húsnæði Sjúkratrygginga Íslands og stóð þar fyrir utan með Gjallarhorn. Ríkisútvarpið gerði mikla frétt um það sinnuleysi almennings að mæta ekki á fundinn. Á vef Ríkisútvarpsins var birt frétt um málið undir fyrirsögninni „Ákall til almennings – magnþrungin ræða“.
Ferðaskrifstofa ársins: Í ljós kom að alþingismenn höfðu opnað í Albaníu og Makedóníu sérstaka ferðaskrifstofu sem býður upp á nokkurra mánaða dvöl á Íslandi og uppihald á vegum skattgreiðenda allan tímann.
Yfirheyrsla ársins: Starfsmenn mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar yfirheyrðu dagskrárstjóra útvarpsstöðvarinnar X-ins um kynjahlutföll stjórnenda þátta á stöðinni.
Kynjahlutföll ársins: Á skrifstofu mannréttindaráðsins störfuðu þá ellefu starfsmenn. Þar af einn karlmaður.
Þyngsli ársins: Svanur Kristjánsson sagði það „þyngra en tárum taki“ að Erna Ýr Öldudóttir, formaður framkvæmdaráðs Pírata, hefði gagnrýnt Birgittu Jónsdóttur opinberlega. Það væri „nauðsynlegt að fólk í æðstu stöðum njóti trúnaðar alls flokksfólks.“
Þónokkuð ársins: Helgi Hrafn Gunnarsson sagði að Birgitta Jónsdóttir hefði „opinberlega rægt aðra, þónokkuð oft og mikið“.
Baktjaldasamkomulag ársins: Árni Páll Árnason, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, skrifaði flokksfélögum sínum bréf og sagði að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið hefði verið byggð á „flóknu baktjaldasamkomulagi“ sem aldrei hefði haldið. Fréttamenn spurðu ekki um þetta baktjaldasamkomulag.
Sjónvarpsþáttaraðir ársins: Ingolf Gabold, fyrrverandi yfirmaður sjónvarpsmynda hjá danska Ríkisútvarpinu, viðurkenndi að sjónvarpsþáttaröðin 1864 hefði verið gerð til að berjast gegn Danska þjóðarflokknum og að sjónvarpsþáttaröðin Kronikan hefði verið „med stor vægt fortalte, at Socialdemokratiet har skabt velfærdsstaten“.
Innviðasmiðir ársins: Þingmenn ákváðu að íslenskir skattgreiðendur settu tvo milljarða í stofnun innviðafjárfestingarbanka í Asíu.
Kvikmyndahússrekendur ársins: Borgaryfirvöld tilkynntu að þau hefðu ákveðið að útsvarsgreiðendur myndu á næstu tveimur árum leggja 25 milljónir króna í rekstur Bíó Paradísar.
Þrenging ársins: Borgaryfirvöld ákváðu að verja 170 milljónum króna til að þrengja Grensásveg um helming og leggja í staðinn göngu- og hjólabraut.
Hamskipti ársins: Ríkisútvarpið ákvað að breyta Rás 1 í Rás 2.
Þarfleysi ársins: Hjálmar Sveinsson, formaður skipulagsnefndar Reykjavíkur, sagði tilgangslaust að fjölga akreinum á helstu umferðaræðum. Þær myndu bara fyllast einhvern tímann af bílum.
Kapphlaup ársins: Matvöruverslanir háðu æsispennandi kapphlaup um hver yrði fyrst að segjast vera hætt að selja brúnegg.
Lyftistöng ársins: Fyrir átta árum varð forsetakjör Baracks Obama blökkumönnum um allan heim tákn um að ekkert væri ómögulegt. Ekki er vafi á að sigur Donalds Trumps nú mun lyfta samskonar grettistaki fyrir appelsínugula um heim allan.
Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum velgengni og góðvildar á komandi ári.