Það gengur hægt að mynda nýja ríkisstjórn.
Það flýtir líklega ekki fyrir að nýju flokkarnir virðast telja það duga til að bylta ýmsum undirstöðum þjóðfélagsins að hafa fengið nokkra þingmenn kjörna.
Þannig virðast Píratar líta svo á að stjórnarskrá lýðveldisins hafi nánast verið felld úr gildi þegar þeir fengu 15% atkvæða í þingkosningunum í október. Viðreisn telur sömuleiðis að sín 10% dugi til að Ísland gangi umyrðalaust í Evrópusambandið.
Björt framtíð hætti hins vegar svo skjótt að vera sjálfstæður flokkur að loknum kosningum að menn héldu að klukkunni hefði verið flýtt.
Þessi flokkar eiga svo einnig þá ósk sameiginlega að eyðileggja eitt besta fiskveiðistjórnunarkerfi veraldar. Að vísu hafa þeir jafnmargar skoðanir á því hvernig eyðileggingin fari fram.
Þessi þrjú mál eru raunar kunnugleg stef. Þetta eru þau þrjú helstu málin sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms náði ekki að ljúka. Það vantar bara Icesave til að komið sé fullt hús, en kannski formaður samtaka um ríkisábyrgð á Icesave geti dregið málið á flot nú þegar hann hefur tekið sæti á þingi fyrir Viðreisn.
Það kemur auðvitað engum á óvart að Píratar hafi ókláruð mál vinstri stjórnarinnar á dagskrá en ef til vill kemur það einhverjum spánskt fyrir sjónir að hið „frjálslynda stjórnmálaafl“ Viðreisn hafi tekið þetta hlutverk að sér.