Af því berast nú fréttir að erlendar eignir Íslendinga séu meiri en skuldir þeirra við útlendinga. Menn efast jafnvel um að slík staða hafi verið uppi áður. Kannski í lok seinni heimsstyrjaldar og kannski á þjóðveldisöld.
Þetta er nánast með ólíkindum aðeins átta árum eftir að nánast allt fjármálakerfi landsins lagði upp laupana og landsmenn töpuðu margir miklum fjármunum – sem í mörgum tilfellum höfðu reyndar myndast skyndilega við óvenju skarpa hækkun eignaverðs eða það sem síðar var nefnt bóla. Ríkissjóður tók í kjölfarið mikil erlend lán og staðan þótti ótrygg.
Eins og menn muna kannski þá fékk „fjórflokkurinn“ það óþvegið á árunum eftir bakahrunið. Bæði flokkarnir sem fóru með völdin fyrir og eftir hrun. Hefur heldur kvarnast úr fylgi hans og í kosningunum í haust fengu nýir flokkar þriðjung atkvæða og þingsæta.
En nú berast hins vega verulega góðar fréttir af íslensku efnahagslífi í hverri viku. Verðbólga er lág, atvinnuleysi hverfandi, kaupmáttur eykst, skuldir lækka og alþjóðlegur samanburður sýnir Ísland í hvívetna meðal fremstu þjóða.
En eru það ekki utanaðkomandi þættir sem hafa ráðið miklu um þetta? Ferðamenn og makríll? Jú en bankahrunið var heldur ekkert séríslenskt fyrirbæri heldur alþjóðleg meinsemd.
Eftir allar skammirnar sem dunið hafa á fjórflokkinum hlýtur sú spurning að vakna hvort hann eigi ekki skilið smá hrós fyrir stöðuna? Hann og enginn annar hefur jú farið með völdin frá hruni.