Ein af mörgum undarlegum afleiðingum laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum eru innkaup Íslendinga á endurnýjanlegri orku frá Hollandi.
Eins og Samorka minnir á með mynd á vef sínum eru Íslendingar meistarar í framleiðslu á orku með endurnýjanlegum hætti en Hollendingar eru neðarlega í neðstu deild.
En íslenska ríkið þvingar Íslendinga til að blanda etanóli í bensín og lífolíum í Dieselolíu í þeim tilgangi að auka notkun endurnýjanlegrar orku. Þess vegna eru nú árlega fluttar inn milljónir lítra af þessum orkusnauðu og dýru vökvum sem auka eyðslu í bílvélum landsmanna. Etanólið er raunar svo orkusnautt að flytja þarf inn meira eldsneyti en áður. Ríkissjóður veitir innflytjendum skattaívilnun til að standa undir hinum aukna innkaupskostnaði. Þeir fjármunir hefðu ella verið ætlaðir til vegagerðar.
En er þetta ekki gott fyrir umhverfið? Nei ástæðan fyrir því að krafan um lífeldsneyti var leidd í lög á Vesturlöndum var þrýstingur frá bændum sem vildu þvinga fram nýjan markað fyrir repju í Evrópu og maís og sojabaunir í Ameríku. Tal um að eldsneyti framleitt úr þessum matjutrum sé gott fyrir umhverfið er eftiráskýring, grænþvottur á hagsmunapoti.
Þetta mál allt er saman er svipað því að menn hæfu milljarða niðurgreiðslu á innflutningi fisks frá landi án sjávarútvegs.