Það er ekki alltaf gott að vera í fremstu röð.
Í gær var sagt frá því að í einungis tveimur Evrópulöndum væri skattbyrði hærri en á Íslandi.
Þetta er áminning um það hversu mikilvægt er að lækka þá skatta sem lagðir eru á Íslendinga. Hæsta tekjuskattsþrepið er nú 46,25% og ofan á flestar vörutegundir er lagður 24% virðisaukaskattur. Af fjármagnstekjum, eins og húsaleigutekjum og vöxtum af bankareikningum, er tekinn 20% skattur. Erfðafjárskattur var nýlega tvöfaldaður. Þannig má lengi telja.
Auðvitað er það ekki þannig að skattféð verði að engu í höndum ríkis og sveitarfélaga. En skattheimtan snýst engu að síður um að taka fé af því fólki sem hefur unnið sér það inn og nota það í eitthvað sem stjórnmálamenn vilja að sé gert, eða halda að verði vinsælt.
Skattar eru allt of háir á Íslandi. Með skattalækkun mætti bæta kjör hins almenna Íslendings svo um munaði. Skattalækkun verður einnig til þess að meira fé fær að verða eftir í vösum þess sem vann sér það inn, en minna fer til stjórnmálamanna til úthlutunar.
En á Íslandi er fjöldi manns sem vill að skattar samborgara þeirra verði hækkaðir. Til eru stjórnmálaflokkar sem hugsa varla um annað en meiri skattahækkanir.