Eitt af því sem stjórnmálaflokkurinn Viðreisn lagði til fyrir kosningar var að skylda fyrirtæki í „jafnlaunavottun“ vegna þess að í svonefndum launakönnunum mælist 5 – 10% „kynbundinn launamunur“ eftir að reynt hefur verið að taka tillit til nokkurra hlutlægra þátta eins og aldurs og starfsaldurs.
Í þessum könnunum er hins vegar ekki tekið tillit til hinna óhlutlægu og illmælanlegu þátta í störfum fólks. Eitt dæmi um illmælanlegan þátt er hversu viljugir menn eru til að vinna yfirvinnu fyrirvaralítið eða leysa úr málum sem koma skyndilega upp. Auk þess fylgja gagnasöfnun af þessu tagi mæliskekkjur.
Óvissan í þessum launakönnunum er því varla minni en „kynbundni launamunurinn“ sem mælist og óvarlegt að byggja miklar stjórnvaldsaðgerðir á þeim.
Viðreisn kynnti frumvarp þar sem segir hvernig „jafnlaunavottun“ skuli fara fram að viðlögðum sektum:
Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skulu undirgangast jafnlaunavottun samkvæmt reglugerð nr. 929/2014 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012, sbr. 6. mgr.
Fyrirtæki sem eru jafnlaunavottunarskyld skv. 3. mgr. ber að framkvæma jafnlaunavottun samhliða gerð ársreiknings og birta niðurstöðu hennar samhliða ársreikningi, sbr. X. kafli laga um ársreikninga nr. 3/2006.
[Ráðherra er heimilt að setja reglugerð1) um nánari framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal um innleiðingu staðals um launajafnrétti, svo sem varðandi hæfniskröfur til vottunarstofa og framkvæmd jafnlaunavottunar.]
Staðlar, vottanir, kerfi, innleiðing, stofur, reglur, kröfur, skylda, sektir. „Við erum frjálslynt stjórnmálaafl.“
Er alveg örugglega gagnlegt að starfsmenn íslenskra fyrirtækja eyði meira af tíma sínum í kvaðir af þessu tagi? Er ekki hugsanlegt að kjör starfsmanna, bæði karla og kvenna, versni vegna þess kostnaðar sem svona miðstýrð kerfi og boð að ofan hafa í för með sér?
En eins og kemur fram í frumvarpi Viðreisnar þá er miðað við að aðeins fyrirtæki þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði verði skylduð í jafnlaunavottuninina. Ekki er útskýrt hvers vegna þessi afsláttur af hinu miklu framfaramáli er gefinn. Hvaðan kom talan 25?
Þannig sleppur til að mynda hið ágæta útgáfufyrirtæki Heimur – þar sem starfa 23 starfsmenn – við jafnlaunavottunina. „Almannahagsmunir framar sérhagsmunum.“