Hver vill verða hækja undir…?

Eftir allar þingkosningar kemur í ljós að margir vinstrimenn bera mikla umhyggju fyrir öðrum flokkum. Ekki Sjálfstæðisflokknum reyndar. Eiginlega bera vinstrimenn þessa umhyggju aðallega fyrir einum flokki, fyrir utan sinn eigin.

Þessi flokkur sem vinstrimenn bera svona mikla umhyggju fyrir, er sá flokkur sem talinn er líklegur til að hafa áhuga á að fara í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum.

Vinstrimenn hafa þá skyndilega miklar áhyggjur af þessum flokki. Það fari allir flokkar svo „illa út úr stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn“.

En hverjir eru það sem enginn ætti að fara í samstarf með, ef þessari röksemdafærslu er beitt?

Árið 2007 fékk Samfylkingin 26,8% atkvæða. Þá fór hún í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Það var í fyrsta skipti sem Samfylkingin settist í ríkisstjórn.

Í þingkosningunum 2009 jókst fylgi Samfylkingarinnar í 29,8%. Þá var mynduð ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrigrænna, sem tók við af minnihlutastjórn sömu flokka sem setið hafði síðustu vikurnar fyrir kosningar.

Eftir fjögur ár af ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrigrænna var kosið til Alþingis. Fylgi Samfylkingarinnar fór úr 29,8% í 12,9%.

Eftir þrjú ár í stjórnarandstöðu með vinstriflokkunum fór Samfylkingin aftur í þingkosningar haustið 2016. Ekki þarf að segja neinum hvernig þær fóru.

Hversu margir hafa heyrt að það fari illa með fylgi flokka ef þeir sitja í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum?

Allir?

En hversu margir hafa heyrt þá kenningu að það fari illa með fylgi flokka að sitja við hliðina á Vinstri grænum?