• Fjölmiðlar leita oft að „sigurvegara kosninga“ og þeim sem hefur „beðið mestan ósigur“. Í þessum kosningum er einn skýr aðili sem sem kemur í hugann sem „ósigurvegari“. Það er hugmyndin um vinstristjórn. Píratar voru samkvæmt skoðanakönnunum með 24% fylgi þegar þeir hófu opinberar viðræður um myndun vinstri stjórnar. Skömmu síðar fengu þeir 14% upp úr kjörkössunum. Hinir flokkarnir, sem mynda áttu vinstristjórnina, hækkuðu ekki á sama tíma.
• Það að veifa vinstristjórn framan í landsmenn, nokkrum dögum fyrir kosningar, er það næst misheppnaðasta sem gert hefur verið í íslenskum stjórnmálum á síðustu misserum. Á eftir öllu því sem Sigmundur Davíð gerði í „viðtalinu“ við sænska sjónvarpsþáttinn.
• Samfylking Jóhönnu Sigurðardóttur bíður í annað sinn mikinn ósigur. Í kosningnum 2013 biðu þáverandi stjórnarflokkar, sem stóðu að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, stærsta ósigur stjórnmálasögunnar. Samfylkingin setti Íslandsmet í fylgistapi. Í kosningunum núna tapaði Samfylkingin aftur verulega. Á kjörtímabilinu var innanhúss gerð atlaga að þáverandi formanni, fyrirvaralaust, þar sem hann hélt velli með eins atkvæðis mun. Eftir það var haldið áfram andófi gegn honum og nýr formaður svo kosinn, Oddný Harðardóttir sem var um tíma fjármálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu.
• Umræðuþáttur formanna flokkanna kvöldið fyrir kosningar hefur vafalaust haft töluverð áhrif. Formennirnir stóðu sig allir vel, hver fyrir sinn flokk, nema einn. Birgitta Jónsdóttir skar sig úr með frammígripum og undarlegum hlutum eins þegar hún tók að veifa miða þegar Bjarni Benediktsson hafði orðið. Vafalítið hafa margir áhorfendur farið að efast um Pírata og margir, sem þá höfðu ætlað að kjósa einhvern vinstriflokkinn, hafa hætt við það og hallað sér að Sjálfstæðisflokknum, sem útilokað hafði samstarf við Pírata. Öðrum hefur þótt þetta mjög flott hjá Birgittu, en þeir hafa hvort sem er ætlað að kjósa Pírata.
• Hvernig hefði því verið tekið ef hlutverkum hefði verið skipt? Ef Bjarni Benediktsson hefði byrjað að veifa miða, þar sem stæði „Prófkjör Pírata í norðvestur“, þegar Birgitta hefði haft orðið.
• Hvað hefði verið sagt ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði sent frá sér myndband þar sem nakin kona dansaði um? Hvaða femínistafélag hefði ekki sent frá sér ályktun? Hvaða kynjafræðingur hefði ekki farið í viðtal í Víðsjá um málið? Hefur einhver þeirra kvartað yfir myndbandi VG?
• Vinstrigrænir eiga einn möguleika til að setjast í ríkisstjórn. Ef forysta vinstrigrænna er fljót að taka af skarið getur hún myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og þriðja flokki, líklega Framsóknarflokki. En allar líkur eru á að hún verði of sein og dæmi sig til stjórnarandstöðu þetta kjörtímabil.
• En getur hún ekki myndað vinstristjórn með Pírötum, Bjartri framtíð, Viðreisn og Samfylkingu? Einmitt. Á síðasta kjörtímabili sátu þrír í þingflokki Pírata. Þeir gátu ekki unnið saman fyrr en þeir voru komnir í meðferð hjá vinnustaðasálfræðingi. Nú eru Píratarnir orðnir tíu.
• Árin 2009 til 2013 voru stjórnarflokkarnir tveir og meirihlutinn rúmur. Flestir muna hvernig það gekk. Forsætisráðherrann sagði opinberlega að það væri eins og smala villiköttum. Þegar stjórnarflokkarnir verða fimm og meirihlutinn þar að auki tæpur, hvernig halda menn að það muni ganga að smala tígrisdýrum?
• Ef þetta nægir ekki þá hefur formaður Viðreisnar útilokað að flokkurinn taki þátt í þessari fimm flokka stjórn. Hverjum dettur líka í hug að Benedikt Jóhannesson, Þorsteinn Víglundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vilji frekar fara í stjórn með Birgittu Jónsdóttur og Smára McCarthy en Bjarna Benediktssyni og Ólöfu Nordal? Án Viðreisnar eru hinir flokkarnir langt frá meirihluta.
• Allt tal Katrínar Jakobsdóttur um þessa stjórn er því til einskis. En á meðan mynda aðrir stjórn.
• Miklar líkur eru því á því að vinstrigrænir endi utan ríkisstjórnar eftir haustkosningarnar. Þeir munu þá læra að það að mynda ríkisstjórn er ekki eins og að stofna pexverksmiðju.
• Hvaða áhrif höfðu formannsskiptin á Framsóknarflokkinn? Græddi flokkurinn á þeim, eða tapaði hann á þeim? Það er engin leið að segja. Með Sigmund Davíð í brúnni hefði orðið meiri umræða um mál sem flokknum eru óþægileg. Stefna flokksins hefði horfið í umræðu um þau mál. Það er hins vegar ekki víst hvort sú umræða hefði haft áhrif á aðra en þá sem hvort sem var voru ákveðnir í að kjósa flokkinn ekki. Með Sigmund Davíð í brúnni hefði flokkurinn hugsanlega orðið valkostur einhverra þeirra sem á lokasprettinum urðu hræddir við vinstristjórn. Eftir kjör Sigurðar Inga hvarf Framsóknarflokkurinn úr umræðunni og náði aldrei þangað aftur. Með Sigmundi Davíð hefði flokkurinn haldist í sviðsljósinu en athyglin hefði orðið mjög blendin. Það er eiginlega útilkokað að segja hvað hefði gagnast flokknum betur.
• Ef Sigurður Ingi hefði ekki náð formennskunni af Sigmundi Davíð fyrir kosningar, hefði hann getað kennt Sigmundi um að flokkurinn hefði ekki náð sér á strik og sagt um leið að sjálfur væri hann maðurinn til að reisa flokkinn við. Nú hefur formennska Sigurðar Inga hins vegar verið reynd í kosningum.
• Á síðasta kjörtímabili sátu Píratar afar oft hjá við atkvæðagreiðslur. Þeir gáfu þá skýringu að þeir hefðu ekki haft tök á að setja sig inn í öll mál og greiddu því ekki atkvæði. En finnst þeim þá líka að þeir kjósendur, sem ekki hafa sett sig inn í helstu mál í kosningabaráttunni, eigi að mæta á kjörstað í þingkosningum? Eða finnst þeim ef til vill mjög mikilvægt að þeir kjósendur komi og kjósi?
• Eitt af því ósanngjarna sem oft er sagt í kosningabaráttu, er þegar hnýtt er í fólk sem kýs „alltaf það sama“. En hvað er óeðilegt við það? Getur ekki verið að á bak við slíkt atkvæði sé meiri hugsun og skoðanafesta en í því að „ákveða sig í kjörklefanum“? Sá sem kýs „alltaf það sama“ hefur einhverja meginstjórnmálaskoðun, hvort sem er til hægri eða vinstri, og hefur því lengi stutt þann flokk sem er í grundvallaratriðum á sömu skoðun, þótt flokkurinn geri auðvitað stundum eitthvað sem kjósandanum mislíkar. En grundvallaratriðin eru þau sömu. Sá sem kýs eitt í dag og annað næst, ákveður sig í kjörklefanum, eftir hverju kýs hann? Nýjasta loforðinu? Nýjasta viðtalinu sem hann heyrði við frambjóðanda? Stemmningunni í vinahópnum? Hvers vegna lítur hann niður á þann sem hefur fastmótaðar skoðanir, sem hafa hugsanlega mótast á löngum tíma og sveiflast ekki dag frá degi.
• Vinstrimenn eru steinhissa á kosningaúrslitunum. Þeir segja hver við annan að „þjóðin“ hafi efnt til mótmæla en kosið svo allt öðruvísi en vinstrimenn héldu. Getur kannski verið að þjóðin sé fleira fólk en hefur hæst á hverjum tíma?
• Hvaða áhrif hafa atburðirnir í apríl í raun haft á fylgi Framsóknarflokksins? Í þjóðarpúlsi Gallup, 1. apríl 2016, var fylgi Framsóknarflokksins 12%. Í kosningunum á laugardaginn fékk flokkurinn 11,5%. Hugsanlega hafa atburðirnir ekki valdið neinu fylgistapi, þótt þeir hafi mjög líklega spillt möguleikum á fylgisaukningu.
• Í umræðum í sjónvarpi á kosninganótt sagðist Sigurður Ingi Jóhannsson ætla að fara á Bessastaði og „skila umboðinu“. Þetta er furðulegur misskilningur, sem fjölmiðlar hafa svo tekið upp. Sigurður Ingi hefur ekkert „umboð“. Hann er forsætisráðherra. Hann getur beðist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og lagt um leið til að forseti feli sér og ráðuneytinu að sitja áfram þar til ný stjórn hefur verið mynduð. Það er hins vegar ekki þannig að forsætisráðherra fari á Bessastaði, „skili umboðinu“ og forsetinn taki við því og geymi það hjá sér þar til hann veitir einhverjum öðrum það.
• Fjöldi flokka bauð fram og einhverjir fengu færri atkvæði en meðmælendur. Flokkur fólksins, sem engan mann fékk kjörinn, gæti að óbreyttum reglum fengið um 40 milljóna framlag úr ríkissjóði. Það er í sjálfu sér jákvætt að menn geti með frekar einföldum hætti boðið fram til þings, en ræða verður hvort breyta þurfi reglum, svo sem með því að framboð þurfi að setja tryggingu, til dæmis milljón, sem fáist endurgreidd ef fylgi nær tilteknum mörkum.
• Önnur regla sem mætti taka upp, er að meðmælendalistar flokkanna verði birtir að kosningum loknum. Ekki ætti hins vegar að birta listana fyrirfram, því þá færi allt að snúast um frægt fólk, búsetu og kynjahlutföll.
• Samkvæmt reglum eiga framboðin að skila uppgjöri til ríkisendurskoðunar. Hvers vegna eiga þeir að gera það sem ekki komast á þing? Hvaða máli skiptir hvort Húmanistaflokkurinn fékk einhvers staðar fjárstyrk?
• Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn boðuðu skattalækkanir. Viðreisn lýsir sér sem frjálslyndum flokki sem hafi mikinn skilning á þörfum atvinnulífsins. Skattahækkunarflokkur kosninganna, Vinstrigrænir, fékk tæplega 16% atkvæða. Er ósanngjarnt að segja að kjósendur hafi fremur hallað sér að skattalækkunum en skattahækkunum í kosningunum? Er ekki öruggt að málefnasamningur nýrrar ríkisstjórnar feli í sér skattalækkanir fyrir alla?
• Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur vilja að Ísland standi utan Evrópusambandsins. Um helgina sagði Katrín Jakobsdóttir einnig að Vinstrigrænir vildu ekki að Ísland gengi í ESB. Þessi flokkar hafa samanlagt 39 þingmenn af 63. ESB-flokkarnir þrír, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylkingin, hafa samtals 14 þingmenn. Þótt öllum 10 þingmönnum Pírata yrði bætt við væru aðeins 24 þingmenn ekki á móti inngöngu í Evrópusambandið, ef yfirlýsing Katrínar er rétt. Við slíkar aðstæður kemur ekki til greina að Ísland óski eftir inngöngu í Evrópusambandið. Það sparar mikinn tíma að ekki þurfi að hugsa um þetta þráhyggjumál á þessu kjörtímabili.
• Af hverju er byrjað að kalla efsta mann hvers flokks í einstökum kjördæmum „oddvita“? Ef nokkrir komast inn af lista flokksins, ræður þessi þá meiru en hinir? Ræður hann stefnunni í kjördæminu?
• Því er mjög haldið á lofti að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki verið með eins jöfn kynjahlutföll og hinir flokkanir. Einmitt það. Hvernig höfðuðu þessir flokkar svo til kjósenda? Getur verið að stór hluti kjósenda kjósi ekki eftir kynjahlutföllum heldur til dæmis stefnu og verkum flokkanna?
• Hversu margir erlendir fréttamenn hefðu komið til landsins ef þeir hefðu vitað að Píratar fengju 14% atkvæða og yrðu í þriðja sæti?
• Stjórnarandstæðingar tala nú mikið um að ráðherrasæti séu ekkert markmið í sjálfu sér heldur ráði málefnin öllu. Alveg megi hugsa sér að allir vinni að málum í sameiningu. Minnihlutastjórn sé líka spennandi hugmynd. En þarf þá nokkuð að mynda nýja ríkisstjórn? Getur núverandi stjórn ekki bara setið áfram og svo vinna menn frumvörp saman í nefndunum? Hvers vegna ætti að samþykkja vantraust á hana?
• Í kosningabaráttunni lýsti Oddný Harðardóttir furðu sinni á skoðanakönnunum vegna þess að Samfylkingin hefði „bestu stefnu í heimi.“ Að loknum kosningum sagði Oddný að úrslitin kölluðu á að Samfylkingin endurskoðaði stefnu sína. Hún tekur þá kannski upp næstbestu stefnu í heimi og kannar hverju hún skilar.
• Þrír píratar gengu á fund forseta Íslands. Ráða menn sjálfir hverjir koma á fund forsetans? Getur flokksformaður ákveðið að mæta með allan þingflokkinn? Sem í tilfelli Samfylkingarinnar væri raunar frekar einfalt.
• Vinstriflokkarnir eru nú orðnir nokkuð margir og kraftar þeirra og atkvæði dreifast mikið. Eitt ráð er til sem gæti hugsanlega nýst vinstriflokkunum á næstunni: Ætli þeir hafi ekkert velt fyrir sér að sameinast?