Staðreyndavogin vegur og metur

Stjórnmálamenn halda mörgu fram, sérstaklega í aðdraganda kosninga. Mjög misjafnt er hversu vel er fylgst með réttmæti orða þeirra. Sumum er algerlega hlíft en orð annarra eru könnuð af ákafa.

Reyndar er ástandið betra að því er varðar stjórnmálamenn en flesta aðra sem koma í fréttir. Ótrúlega sjaldgæft er að fréttamenn eða þáttastjórnendur kanni réttmæti fullyrðinga viðmælenda sinna. Oft má heyra fólk halda fram alls kyns misskilningi í fjölmiðlum, án þess að neitt sé kannað. Þetta er algengt þegar efnt er til einhvers „átaks“. Þá koma forsvarsmenn í viðtöl á flestum miðlum, fara með æfðan texta, og allt er sent út eins og þekkt sannindi.

Nú fyrir alþingiskosningarnar, sem enn virðist standa til að halda í lok þessa mánaðar, hefur Viðskiptablaðið stofnað það sem blaðið kallar „staðreyndavog“. Þar eru athyglisverðar fullyrðingar frambjóðenda teknar fyrir og sannleiksgildi þeirra kannað.

Allnokkur ummæli hafa verið vegin á staðreyndavoginni.

Ein eru um „ójöfnuðinn“, sem mörgum er mjög hugleikinn. „Ójöfnuðurinn“ er mikilvægt baráttutæki, sérstaklega á þeim tímum þegar lífskjör nær allra mældra hópa hafa batnað mjög verulega undanfarið kjörtímabil. Við þær aðstæður er „ójöfnuðurinn“ mjög mikilvægur: Ja, kannski hafa kjör þín batnað aðeins, en minna en annarra. Aðrir hafa fengið enn meiri aukningu en þú. Kökunni er ójafnt skipt. Það vantar réttlæti. Já og nýja stjórnarskrá.

Viðskiptablaðið segir:

Hið rétta er að tekjujöfnuður eftir skatta er mestur á Íslandi af ríkjum OECD, var það í tíð síðustu ríkisstjórnar og er enn. Samkvæmt Gini stuðlinum sem notaður er til að mæla tekjudreifingu hefur heldur dregist saman með tekjuháum og tekjulágum síðastliðin ár og var stuðullinn 0,4 lægri (meiri jöfnuður) árið 2015 en við lok síðasta kjörtímabils.

Viðskiptablaðið kannar fleiri ummæli. Í kosningaþætti Ríkissjónvarpsins segir þáttastjórnandi:

„Hér á landi er kostnaðarþátttaka með því mesta sem gerist á Norðurlöndunum.“ Rósa Björk Brynjólfsdóttir, efsti maður Vinstrigrænna í suðvesturkjördæmi tekur undir og segir: „Hún [kostnaðarþátttakan] er 18% á Íslandi en 3% í Svíþjóð.“

Viðskiptablaðið kannar málið og kemst að niðurstöðu: „Það er því vissulega rétt hjá Rósu að kostnaðarþátttaka sjúklinga á Íslandi er kringum 18%. En í Svíþjóð er hún hins vegar 14% en ekki 3%.“