Hópur svonefndra álitsgjafa og pistlahöfunda hefur í áratugi reynt að telja Íslendingum trú um að lýðveldið Ísland sé aumt framtak, nánast allt sem gert er hér á landi beri vott um heimsku landsmanna, stjórnarskráin sé ónýt, níðst sé á náttúrunni, auðlindum sé rænt, ójöfnuður sé agalegur, kynjamisrétti ógurlegt, stjórnmálastéttin sé gjörspillt og þeir sem kjósi hana til valda séu fábjánar, allt sé betra í útlöndum, ekki sé því um annað að ræða en ganga í Evrópusambandið eða gera Ísland að útnárafylki í Noregi.
En í síðustu viku birti læknaritið Lancet samantekt um hve vel ríkjum gangi að uppfylla heilsutengd sjálfbær þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna (Sustainable Development Goals). Sjálfbæru þróunarmarkmiðin eru 17 meginmarkmið um lífskjör, hagsæld, heilbrigði, jafnrétti, sjálfbærni, náttúrunvernd, frið og almenna farsæld.
Í rannsókninni sem birt er í læknaritinu eru 33 heilsutengd markmið tekin saman fyrir 188 lönd.
Skemmst er frá því að segja að Ísland trónir á toppi þessa lista.
Á þennan mælikvarða er hvergi betra að búa en á Íslandi.
Þetta er auðvitað ekkert sjálfsögð niðurstaða fyrir fátt fólk í stóru landi. Hér dreifist fastur kostnaður við hvers kyns þjónustu, hvort sem er spítala, verslanir eða vegakerfi, á fáa. Því þarf að halda vel á málum til að ná betri árangri en fjölmennari þjóðir.
Íslendingar gera það með glæsibrag samkvæmt þessari rannsókn.
En þetta kemur auðvitað ekki alls kostar á óvart því nær vikulega birtast alls kyns alþjóðlegar samanburðarrannsóknir sem gefa til kynna að Ísland sé meðal farsælustu ríkja veraldarsögunnar. Hamingja, hagsæld, friður og frelsi eru helstu einkenni þessa sjálfstæða smáríkis.
Auðvitað er sjálfsagt að taka niðurstöðum slíkra rannsókna og kannana með öllum þeim fyrirvörum og takmörkunum sem á þeim eru. En þó er óhætt að segja að þessar rannsóknir gefi allt aðra mynd af Íslandi en álitsgjafarnir draga daglega upp í pistlum sínum.