Kjörnir fulltrúar eiga að kynna sér málin

Mynd: Hobbit/Shutterstock.

Mikla athygli vakti á dögunum þegar stærsti hluti stjórnarandstöðunnar sat hjá í atkvæðagreiðslu um lög vegna nýs búvörusamnings. Á því hafa engar skynsamlegar skýringar fengist, allra síst hjá þingmönnum Pírata, sem þó ætla sér að taka við stjórnartaumunum í landinu eftir sex vikur, ef áform um haustkosningar verða að veruleika.

Píratar hafa reyndar lengi vakið athygli fyrir hjásetur sínar og skýringar sínar á þeim.

Arnar Þór Jónsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, skrifaði stutta grein í Morgunblaðið um helgina þar sem hann fjallar um fulltrúalýðræði og þingmenn sem ekki virðast alltaf gera sér grein fyrir hlutverki sínu. Arnar Þór segir:

Til að gera langa sögu stutta er viðurkennt að almenningur hafi vald til að taka ákvarðanir um sameiginlega hagsmuni sína. Nú kann það að vera fögur hugsjón að iðka lýðræðið með beinum hætti, þ.e. með því að kjósendur taki milliliðalaust þátt í pólitískum ákvörðunum. Hinn blákaldi veruleiki er þó sá að venjulegt vinnandi fólk skortir iðulega bæði svigrúm og tíma til þess að setja sig inn í flókin samfélagsleg úrlausnarefni. Sú staða er óbreytt enn í dag, hvað sem líður tækniframförum og bættum samgöngum. Beint lýðræði er því illa framkvæmanlegt og í almennri framkvæmd eru þjóðaratkvæðagreiðslur aðeins haldnar í undantekningartilvikum um málefni sem varða mikilvæga hagsmuni landsmanna.

Þetta er raunar ástæðan fyrir því að flest lýðræðisríki nútímans hafa komið á fót svonefndu fulltrúalýðræði, þar sem borgararnir fela kjörnum fulltrúum sínum að taka ákvarðanir um málefni samfélagsins – og þar með um almannahag. Fyrir þetta þiggja þessir sömu fulltrúar almennings laun og ýmiss konar fríðindi. Það skýtur því skökku við og ber vott um vanþekkingu á stjórnskipulegu hlutverki – eða virðingarleysi fyrir kjósendum – þegar þingmenn lýsa því yfir að þeir hafi ekki tekið afstöðu vegna þess að þeir hafi „ekki haft tök á“ að kynna sér mál í þaula. Fyrir hvað þiggja þingmenn laun ef ekki einmitt fyrir að setja sig inn í þingmálin og taka yfirvegaða afstöðu? Það er holur hljómur í lúðrablæstri heils þingflokks um „upplýsta ákvörðunartöku“ þegar það slagorð er notað til að réttlæta hjásetur við atkvæðagreiðslur á Alþingi.

Lýðræðisástin ristir vart djúpt hjá þingmönnum sem afsala sér ákvörðunarvaldi, jafnvel í stærstu málum. Ef sjálfskipaðir kyndilberar lýðræðisins bregðast hlutverki sínu með þessum hætti hljóta kjósendur að minnast þess á kjördag þegar kjörtímabilið er gert upp og ábyrgðinni endurúthlutað.