Samfylkingin á fyrsta boð í kjósendur og hefur nú boðið „ókeypis heilbrigðisþjónustu“. Oddný Harðardóttir segir að það muni kosta 30 milljarða þegar „allt“ sé talið með, þar á meðal tannlæknakostnaður.
Aðrir flokka vilja varla taka áhættuna af því að Samfylking nái völdum með þessu boði og þeir munu því bjóða betur. Þeir munu lofa að á næsta kjörtímabili verði ekki aðeins heilbrigðisþjónusta heldur allt annað líka, frítt.
Allt frítt, er kosningaloforðið í ár. Það er langmesta réttlætið í því fólgið. Þá er jafn réttur til alls.
Fyrir þetta verður greitt með því að hækka auðlindagjöldin. Það gengur ekki að einhverjir menn, sem hafa keypt sér skip sem hvert um sig kostar milljarða, geti bara farið og veitt fisk, auðlind Þjóðarinnar, án þess að hún fái hagnaðinn. Nú þegar rennur aðeins rúmlega helmingur hagnaðarins í ríkissjóð með auðlindagjaldi, sem hefur aldrei í sögunni verið hærra, en auðvitað er hægt að hækka auðlindagjaldið endalaust til að ná fram meira réttlæti.
Eina hættan við þetta kosningaloforð er að einhver yfirbjóði með því að lofa að kjósendur geti fengið tvöfalt af öllu, frítt.
Þá er svarið að lofa að allir fái þrefalt, frítt. En til að borga það verður að hækka auðlindagjaldið enn meira en auk þess að banna skattsvik.
Ef nauðsyn knýr menn til að lofa að allir fái allt fjórum sinnum frítt verður þetta aðeins dýrara, en þó ekki svo að ekki nægi að hækka auðlindagjaldið, banna skattsvik, fækka sendiráðum og afnema spillingu.
Lokaloforðið verður síðan að sýna meiri auðmýkt, en hún er sýnd með því að samþykkja allt sem andstæðingarnir segja.
Það er annars merkilegt að formaður Samfylkingarinnar treysti sér til að svara því hvað myndi kosta að veita öllum „ókeypis heilbrigðisþjónustu“. Að hún telji sig vita hver efri mörkin yrðu þegar öll „heilbrigðisþjónusta“ verður mönnum að kostnaðarlausu. Aðgerðir, vitjanir, viðtalstímar, samtalsmeðferðir, rannsóknir og allt slíkt, verður bara á kostnað ríkisins.
En þegar menn verða búnir að ákveða að öll „heilbrigðisþjónusta“ verði veitt „ókeypis“, en á kostnað ríkisins, hljóta menn að þurfa að sækja kosningasigrana eitthvert annað næst. Þá kemur kannski röðin að afþreyingunni. Hvaða réttlæti er í því að það sé misjafn aðgangur að henni? Það hafa ekki allir efni á leikhúsmiðum. Eiga tónleikar að vera forréttindi? Svo eru það menntamálin. Skólar, námskeið, fróðlegar bækur. Vilja menn að það sé ójafn aðgangur að þessu? Nei að sjálfsögðu ekki. Þetta þarf allt að vera gjaldfrjálst. Svo er það nú fatnaðurinn. Allir þurfa föt. Ríkið verður að sjá mönnum fyrir þeim. Og það verða að vera falleg föt. Hver vill búa í þjóðfélagi þar sem margir neyðast til að vera í ósmekklegum fötum en aðrir geta veitt sér hátískuvarning? Í því er ekkert réttlæti fólgið. Hvað með ferðalög? Eiga þau að vera munaður fárra? Er ekki betra að opinber ferðaskrifstofa taki þetta að sér? Samfélagsferðir ohf.
En þegar ríkið sér um öll þessi mikilvægu útgjöld vaknar auðvitað spurningin um það hvers vegna atvinnutækin, sem skapa verðmæti, eiga að vera í höndum einhverra einkaaðila. Hvaða réttlæti er í því? Vilja menn að fyrirtæki séu rekin samkvæmt „hagnaðarkröfu“? Vilja menn ekki miklu frekar hafa „samfélagsfyrirtæki“?
Ríkið rekur bara atvinnufyrirtækin samkvæmt lýðræðislegum ákvörðunum starfsmanna og sér svo landsmönnum fyrir nauðþurftum. Það er réttlæti.
En að sjálfsögðu vill enginn ganga svona langt. Það væru fáránlegar öfgar. Menn vilja bara stíga eitt stutt skref. Svo ekkert meira.