Dúkkulísan gaf sig fram í dag

Mynd: MSSA/Shutterstock.

Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar fór mikinn við aðra umræðu um frumvarp Gunnars Braga Sveinssonar landbúnaðarráðherra vegna búvörusamninga hinn 1. september síðastliðinn:

Virðulegi forseti. Meðferð þessa máls í þinginu er sönnun þess að málið er vanbúið og illa unnið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Nefndin ákveður að reyna að búa til samningsmarkmið eftir að búið er að gera samning til tíu ára. Fjárhæðin til tíu ára jafngildir óhagstæðasta uppreikningi á Icesave-samningi, vegna þess að Icesave var nefnt hér áðan, 200 milljörðum af almannafé. Það er ekki búið að gera neina greiningu um samningsmarkmið eða þarfagreiningu um árangur. Þetta er svakaleg framganga af hálfu stjórnvalda. Það verður athyglisvert að sjá atkvæðagreiðsluna og hvernig þær dúkkulísur frjálslyndisins, sem sprella hér daginn út og inn og þykjast tala fyrir frjálslyndi og athafnafrelsi á vettvangi Sjálfstæðisflokksins og ætla að sækja sér umboð í prófkjörum um næstu helgi og þarnæstu, greiða atkvæði. (Forseti hringir.) Munu þær standa með athafnafrelsi eða munu þær ganga svipugöng Framsóknar í þessu máli?

Augljóst var að Árni Páll beindi þessum orðum og smekklega uppnefni ekki síst að Sigríði Á. Andersen þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem tekið hafði þátt í umræðunni.

Og hvernig greiddi svo Árni Páll atkvæði við lokaafgreiðslu hins vanbúna og vonda máls ríkisstjórnarinnar í dag? Stóð hann með athafnafrelsinu og reyndi að koma í veg fyrir þennan 200 milljarða reikning á skattgreiðendur? Ýtti hann ekki af öllu afli á rauða takkann þegar þessi svakalega framganga ríkisstjórnarinnar kom til atkvæða í dag? Sýndi hann ekki dúkkulísunum hvernig ætti að gera þetta?

Nei, hann sat hjá. Settist í svipugöng Framsóknar.

Sigríður greiddi hins vegar atkvæði gegn frumvarpinu.