Vegafé Íslendinga kastað á lífolíubálið

Mörg hundruð milljónir króna sem áður fóru til vegagerðar renna nú árlega úr landi til niðugreiðslu á innkaupsverði lífeldsneytis.

„Innviðir“ eru víst nýtt orð yfir vegi landsins og „innviðauppbygging“ er nýtt orð yfir vegagerð.

Líklega hentar það mörgum sem hafa óþol gegn einkabílnum að tala frekar um innviði en vegi. Allt í góðu með það.

Margir hafa nefnt það undanfarið að nauðsynlegt sé að bæta innviðina vegna mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna á vegunum. Alls ekki má viðurkenna að þörf sé á vegabótum vegna þeirra Íslendinga sem fara um vegina enda er þeim ætlað að „tileinka sér bíllausan lífsstíl.“

Gríðarlegir skattar eru innheimtir af bíleigendum meðal annars á þeirri forsendu að standa þurfi undir vegagerð. Bryndís Loftsdóttir frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í suðvestur kjördæmi nefnir til að mynda þetta dæmi í grein í Fréttablaðinu í dag:

Stór fjölskyldubíll er fluttur til landsins. Innkaupsverð og flutningskostnaður eru samanlagt 4,5 milljónir. Bíllinn lendir í vörugjaldsflokki D, sem er 45%. Ríkið innheimtir 2.025.000 krónur í formi vörugjalds auk 486.000 kr.  virðisaukaskatts sem lagður er á vörugjaldið sem samanlagt verður því um 2,5 milljónir. Virðisaukaskattur leggst einnig á verðmæti bifreiðarinnar. Þannig tekst ríkissjóði að innheimta ríflega 3,5 milljónir af kaupanda bifreiðar sem kostaði 4,5 milljónir þegar henni var skipað í land, það jafngildir rétt um 80% heildarskattheimtu.

Stór hluti af söluverði eldsneytis er einnig skattar.

En á síðasta kjörtímabili var ákveðið að skylda seljendur eldsneytis til að selja ákveðið hlutfall af „endurnýjanlegu eldsneyti.“

Þetta endurnýjanlega eldsneyti er dýrara í innkaupum en hefðbundið eldsneyti auk þess að leiða til aukinnar eyðslu og hafa ýmis neikvæð umhverfisáhrif.

En til að bæta seljendum eldsneytis upp aukinn innkaupskostnað var ákveðið að ríkið gæfi eftir eldsneytisskattana. Peningar sem áður fóru í vegagerð eða „innviðauppbyggingu“ renna nú úr landi í vasa framleiðenda á lífeldsneyti.

Um er að ræða mörg hundruð milljónir króna á ári hverju.