Lög um ívilnanir til nýfjárfestinga eru einhver argasta mismunun sem leidd hefur verið í lög hér á landi á síðari árum. Lögin voru sett í tíð vinstri stjórnarinnar 2010, runnu út árið 2013 en voru endurnýjuð á síðasta ári til að trygga að sem flest verk vinstri stjórnarinnar væru enn til staðar þegar núverandi stjórn fer frá völdum.
Með lögunum er opnað fyrir að sumir séu jafnari en aðrir þegar kemur að sköttum og skyldum. Ákveðnir aðilar fá forgjöf þegar kemur að því að ráða fólk, þjálfa það og greiða því laun. Þá fá þeir afslátt af tekjuskatti fyrirtækja.
Óli Björn Kárason varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins ritaði greinina „Innlend skattaskjól fá staðfestingu“ í Morgublaðið í gær. Þar bendir hann á að Íslendingum líki almennt ekki að menn komi sér undan skattgreiðslum en hins vegar virðist fáir malda í móinn þegar fyrirtækjum eru veittar skattalegar ívilnanir. Óli Björn nefnir ýmis dæmi:
Það er því merkilegt hve Íslendingar eru umburðarlyndir þegar skipulega er unnið að því að búa til tvöfalt skattkerfi – mismuna fyrirtækjum og athafnamönnum. Allt samkvæmt lögum og ákvörðunum stjórnvalda á hverjum tíma. Jafnræðisreglan var numin úr gildi af vinstri ofstjórninni 2009 til 2013, þegar erlendum fjárfestum var boðið að kaupa eignir hér á landi með 20% afslætti í gegnum Seðlabankann. Þá nutu þóknanlegir auðmenn og þekktar Hollywood-stjörnur sérstakrar ríkisverndaðrar velvildar í formi skattfríðinda. Vinstri stjórn norrænnar velferðar innleiddi ójöfnuð og óréttlæti, setti íslenska framtaksmanninn út í horn og taldi rétt að launafólk stæði skörinni lægra en þekktar kvikmyndastjörnur. Nú er komin meiri formfesta á forréttindin.
„Af hverju eru Tom Cruise og Russell Crowe jafnari en við hin?“ var yfirskrift Morgunblaðsgreinar sem ég skrifaði í maí á síðasta ári. Þar var gagnrýnt hvernig skattalegir ívilnunarsamningar hefðu brotið gegn jafnræðisreglu, sem við Íslendingar viljum þó halda í heiðri – a.m.k. í orði.
Hann bætti svo við um nýjan ívilnanasamning ríkisins við Silcor Materials:
Í liðinni viku gaf ESA – Eftirlitsstofnun EFTA – grænt ljós á ívilnunarsamning sem íslensk stjórnvöld gerðu við Silicor Materials vegna byggingar sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Samningurinn tryggir eigendum verksmiðjunnar skattalegt hagræði og sérreglur um leigu og fyrningu í tíu ár. Þannig er búið til sérstakt »skattaskjól« fyrir sólarkísilverksmiðju upp á 4.640 milljónir króna samkvæmt mati ESA.Samningurinn gerir ráð fyrir að tekjuskattur fyrirtækisins verði 15% í stað 20% líkt og íslensk fyrirtæki þurfa að greiða. Þá fær verksmiðjan sérstakan 50% afslátt af tryggingagjaldi sem reiknast af launagreiðslum til starfsmanna og einnig 50% afslátt af fasteignagjöldum.
Áætlanir Silicor Materials gera ráð fyrir að um 450 starfsmenn verði á vegum fyrirtækisins þegar verksmiðjan tekur til starfa. Ívilnunarsamningurinn jafngildir því 10,3 milljónum króna á hvert starf. Sjálfstæði atvinnurekandinn sem hefur hug á því að fjölga starfsmönnum hefði örugglega ekkert á móti því að fá rúmlega tíu milljónir króna í meðgjöf með hverju nýju starfi, ekki síst á meðan tryggingagjaldið lækkar ekki meira. En athafnamanninum, með litla fyrirtækið, stendur ekki slíkur samningur til boða, ekki frekar en sérstakir þjálfunarstyrkir sem ríkið er tilbúið að veita á grunni ívilnana.
Það er fullkomlega eðlilegt og skiljanlegt að eigendur Silicor Materials gangi til samninga við stjórnvöld um skattalegar ívilnanir og komi sér í skattalegt skjól í áratug. Allir atvinnurekendur myndu grípa slíkt tækifæri. En tækifærin standa ekki öllum til boða. Í því felast óréttlætið og ójöfnuðurinn. Kannast einhver við söguna um um Jón og séra Jón?
Auðvitað er það rétt og skynsamlegt að ýta undir fjárfestingu í atvinnulífinu með skattalegum hvötum. Þannig er byggt undir bætt lífskjör landsmanna. Forréttindi útvalinna er hins vegar versta aðferðin. Einföld reglusetning og hófsöm skattlagning, þar sem allir lúta sömu leikreglum, eru efnahagslegir hvatar sem brengla ekki ákvarðanir og tryggja hagkvæma nýtingu fjármuna.
Á undanförnum árum hafa verið gerðir fleiri ívilnunarsamningar s.s. um álþynnuverksmiðju, fiskvinnslu, gagnaver, stálendurvinnslu, fiskeldi og kísilver. Það er umhugsunarvert af hverju sérstöku skattaskjólin sem búin hafa verið til hér á landi vekja litla eða enga athygli. Fjölmiðlar beina fremur kastljósinu að aflandseyjum, sem fáir þekkja nema af afspurn. Stjórnmálamenn halda áfram að undirrita forréttindasamninga í stað þess að ganga hreint til verks og sníða hagstætt skattaumhverfi. Forskriftin liggur fyrir í ívilnunarsamningunum sjálfum.
Já það eina jákvæða við lögin um ívilnanirnar er að þau eru viðurkenning á því að mörg fyrirtæki eiga sér enga von þurfi þau að greiða þá skatta sem hér eru almennt lagðir á fyrirtæki og fjölskyldur.