Vefþjóðviljinn 190. tbl. 20. árg.
Innan sem utan þjóðkirkjunnar hafa risið deilur í framhaldi af framgöngu presta í einum söfnuði í Reykjavík til stuðnings tveimur mönnum sem yfirvöld höfðu úrskurðað að vísa ætti til Noregs. Ef marka má fréttir hafa einhverjir sagt sig úr þjóðkirkjunni vegna málsins.
Alveg óháð efnisatriðum þessa máls þá minnir það á að fólk getur sagt sig úr þjóðkirkjunni, mislíki því eitthvað í gjörðum kirkjunnar. Sem auðvitað er sjálfsagt að fólk megi gera, eins og ekki þarf að taka fram.
Ekki búa allir við slíkt aðhald. Afar skýrt dæmi er Ríkisútvarpið, sem virðist ekki lúta neinu aðhaldi. Útvarpsráð var lagt niður, til að friða starfsmenn sem þoldu ekki að lýðræðislega kjörnir fulltrúar almennings fengju að koma að slíku hlutverki. Í staðinn kom „stjórn Ríkisútvarpsins“ sem lætur allt afskiptalaust sem starfsmenn gera en telur hlutverk sitt fyrst og fremst að þrýsta á alþingi um meiri fjárframlög til Ríkisútvarpsins.
En hvers vegna ekki að leyfa almennningi að veita Ríkisútvarpinu raunverulegt aðhald? Hvers vegna ekki að leyfa fólki að skrá sig „undan Ríkisútvarpinu“, með svipuðum hætti og menn geta skráð sig utan trúfélaga? Það mætti til dæmis ákveða að útvarpsgjaldð rynni þá í staðinn til einhverrar annarrar starfsemi á þeim sviðum sem Ríkisútvarpinu er ætlað að styðja, íslenskri menningu og öryggi. Háskóli Íslands, Árnastofnun, Þjóðleikhúsið, björgunarsveitirnar og margt annað kæmi þar til greina.
Væri ekki mun geðfelldara fyrir Ríkisútvarpið, sem hrósar sér reglulega af því trausti sem það njóti hjá almenningi, að fá framlögin með þeim hætti að þau bærust frá fólki sem raunverulega telur þeim vel varið í Efstaleiti?
Samhliða þessu ætti að taka stjórnmálaflokkana af fjárlögum. Skattborgarar eiga ekki að reka stjórnmálaflokka. Næstu alþingiskosningar eru tilvalið tímamark til þess. Að minnsta kosti til að lækka ríkisframlögin verulega. Hugsanlega væri stuttur aðlögunartími eðlilegur, til dæmis þannig að framlögin yrðu að engu í áföngum á þremur árum. En meginmarkmiðið verður að vera það að ríkisframlög til stjórnmálaflokka heyri sögunni til.