Vefþjóðviljinn 187. tbl. 20. árg.
Eitt sem ekki breytist er að enn er verið að gefa út Bótaskrárnar.
Auglýsingar heyrast allsstaðar: Bótaskrárnar eru komnar út. Kaupið bótaskrárnar.
Tryggingastofnun sendir frá sér lista yfir hæstu bótaþega í hverju kjördæmi og fréttamenn lesa þá upp. Engin lagaheimild er fyrir því að senda þetta út en það er gert samt, og enginn fettir fingur út í það, af ótta við að vera talinn vinur bótaþega.
Fjölmiðlar vinna upp úr bótaskránum. Þeir birta lista yfir hæstu atvinnuleysisbótaþega, hæstu örorkubótaþega, hæstu vaxtabótaþega, hæstu barnabótaþega og svo framvegis.
Ef einhver mótmælir þessu og bendir á að hér sé fjallað opinberlega um viðkvæm persónuleg málefni er því svarað að þetta að vera opinberar upplýsingar, þar sem bótagreiðslurnar komi úr sameiginlegum sjóðum. Fólk sem borgi skatta eigi rétt á að vita í hvað skattarnir fara. Í öðru lagi er sagt að birting bótaskránna sé mikilvæg í baráttunni gegn bótasvikum. Menn þori ekki að þykjast vera atvinnulausir en vinna samt svart, ef þeir vita að bótaskráin verður birt.
Ef þessi rök duga ekki er því bætt við að fjárhagslegar upplýsingar séu ekkert viðkvæmar upplýsingar, nema menn hafi eitthvað að fela.
Þess vegna koma Bótaskrárnar áfram út.