Vefþjóðviljinn 172. tbl. 20. árg.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lætur enn eins og uppnámið fyrr í vor sem leiddi til afsagnar hans sem forsætisráðherra hafi snúist um skattamál eiginkonu hans eða klaufalega frammistöðu hans í viðtali við sænska sjónvarpið. En það voru aldrei aðalatriði málsins.
Vandamálið er að hann átti alla sína tíð í stjórnmálum mikla leynda hagsmuni með kröfuhöfum gömlu bankanna í gegnum félagið Wintris.
Hann ákvað að greina ekki frá þessum hagsmunum þótt hann gæfi sérstaklega kost á sér í tvennum þingkosningum til að vinna í málum sem vörðuðu kröfuhafana og þar með hann sjálfan.
Í grein á vefsíðu sinni 18. mars rifjaði Sigmundur Davíð upp að hann hefði eftir bankahrunið hvatt til þess að ríkissjóður Íslands hæfi kaup á þessum kröfum því þær væru líklegar til að hækka í verði í kjölfarið.
Skömmu eftir hrunið benti ég á að ríkið ætti að eignast kröfurnar á bankana á meðan þær væru einskis metnar.
Að Sigmundur Davíð skyldi rifja þetta upp bendir til að hann átti sig alls ekki á þeim hagsmunaárekstrum sem þarna eru. Það nær engri átt að menn, hvað þá stjórnmálamenn, leggi að ríkissjóði að bjóða í eigur sínar, hvað þá leynilegar eigur sínar, vandlega faldar á Tortóla.
Þegar einstaklingur tekur að sér að verja hagsmuni fólks upplýsir hann ef hann á sjálfur gagnstæðra hagsmuna að gæta. Þetta er skráð regla vítt og breitt um þjóðfélagið, meðal annars í hæfisreglum stjórnsýslulaga. En fyrst og síðast eru þetta nánast meðfæddir mannasiðir á Vesturlöndum og þótt víðar væri leitað. Þessa góðu venju hefði Sigmundur Davíð getað virt en kaus að gera ekki.
Hin leið Sigmundar Davíðs til að losa sig úr þessari stöðu var einfaldlega að skera á tógið milli Wintris og annarra kröfuhafa. Wintris gat hvenær sem er selt kröfurnar á bankana. Hvers vegna var það ekki gert þegar farið var í þingframboð 2009 eða í síðasta lagi við kosningar 2013 þegar stefndi í ríkisstjórnarþátttöku?
Vefþjóðviljinn hafði vonast til þess að forsætisráðherrann þáverandi myndi hið minnsta fallast á að þetta hafi verið óæskileg staða sem hann bjó við undanfarin sjö ár og ekki til eftirbreytni. Hann gæti alltaf bætt við að hann vonaði að allir gætu samsinnt því að hann hefði ekki látið þetta trufla störf sín þótt auðvitað sé engin leið að meta slíkt með nokkurri vissu og auðvitað ekki heldur hægt að ganga að því sem vísu að fólk treysti manni framvegis sem heldur svo mikilvægum upplýsingum leyndum.
Eftir viðtöl fimmtudagsins 24. mars í Fréttablaðinu og við Útvarp Sögu var hins vegar ljóst að hann ætlaði sér ekkert slíkt. Og í viðtali á Bylgjunni á Páskadagsmorgun fullyrti ráðherrann að það hefði skapað hagsmunaárekstra að upplýsa um hagsmunaáreksturinn, það hefði beinlínis verið siðferðislega hættulegt að upplýsa um hagmunina í Wintris. Þar með viðurkenndi ráðherrann að þarna hafi verið miklir hagsmunir fyrir hann sjálfan.
Hann hefur einnig bent á að ef þessir peningar hefðu verið fluttir heim til Íslands og fjárfest fyrir þá hér hefði það getað skapað hagsmunaárekstra. En stór hluti þessara peninga var einmitt í búum þriggja íslenskra banka, sem voru helst þau íslensku félög sem forsætisráðherra var þar með vanhæfur til að skipta sér af. Það hefði ekki skapað hagsmunaárekstur ef þessir peningar hefðu verið í nánasta hvaða öðrum íslenskum félögum en búum gömlu bankanna.
Það var bág dómgreind að fara ekki að skráðum og óskráðum vanhæfisreglum. Hitt var þó öllu verra að gera þá kröfu til þjóðfélagsins að þessir sjálfsögðu mannasiðir yrðu lagðir af í stað þess að viðurkenna réttmæti þeirra þótt það hefði kosti nokkra viðurkenningu á eigin yfirsjón.