Vefþjóðviljinn 166. tbl. 20. árg.
Bretar ganga að kjörborði innan skamms og greiða atkvæði um áframhaldandi veru sína í Evrópusambandinu. Kannanir segja að mjótt sé á munum og geta menn spáð í báðar áttir, miðað við kannanir. Þeir sem vilja að Bretland gangi úr Evrópusambandinu geta sagt við sjálfa sig að sjálfstæðissinnar séu sannfærðari en hinir, og því líklegri til að mæta á kjörstað, en þeir sem vilja halda Bretlandi í Evrópusambandinu geta hugsað með sér að þeir óákveðnu, sem enn er talsverður fjöldi, séu líklegri til að hræðast úrsögnina og taka mark á samfelldum hrakspám aðildarsinna um það sem muni gerast ef Bretland gengur út.
Spennan er því mikil og líklega helmingslíkur á hvorri niðurstöðu sem er.
En kosningin sjálf er einstæð. Undanfarna áratugi hefur meginreglan verið sú að fólk fær aðeins að kjósa um meiri samruna og meira vald til Brussel. Séu niðurstöðurnar ráðamönnum í Brussel ekki að skapi, þá er yfirleitt kosið aftur. En séu niðurstöðurnar samkvæmt vilja ráðamanna í Brussel, þá er ekki kosið aftur.
Menn gætu til dæmis spurt Íra um reynslu þeirra af þjóðaratkvæðagreiðslum og Evrópusambandinu.
Kosningin sem nú verður haldin í Bretlandi er hins vegar ekki til komin af lýðræðisást ráðamanna í Brussel eða í London. Andstæðingar aðildar Bretlands að Evrópusambandinu hafa með áralangri baráttu náð því fram að atkvæðagreiðslan verður haldin. Með því að halda vöku sinni, með því halda stöðugt áfram baráttunni, ekki síst innan Íhaldsflokksins, tókst að fá stjórnvöld til að halda atkvæðagreiðsluna. Ráðamenn Evrópusambandsins eru núna hræddastir um að fólk í öðrum Evrópusambandslöndum gangi nú á lagið og spyrji hvers vegna það megi ekki fá að kjósa um það sama og Bretar.
Fullveldissinnuðu fólki í öðrum löndum á Brexit-kosningin að vera áminning og brýning. Baráttan fyrir því að Ísland standi utan Evrópusambandsins, verji fullveldi sitt og gangist aldrei undir erlenda klafa, er ekki búin. Hún mun halda áfram.
Fullveldissinnar verða að halda vöku sinni.