Vefþjóðviljinn 159. tbl. 20. árg.
Tillögu um svonefnd „borgaralaun“ var hafnað með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss um helgina. Það var skynsamlegt hjá miklum meirihluta kjósenda í landinu.
Hér á Íslandi hafa þingmenn Pírata ítrekað lagt til að hafin verði vinna við að innleiða „borgaralaun“ á Íslandi.
Það er á margan hátt dæmigert að slíkar greiðslur skuli kallaðar „laun“. Það er sífellt verið að reyna að breyta orðnotkun, til að auðvelda að ná fram pólitískum markmiðum. Þetta er til dæmis áberandi í útlendingamálum þar sem margir eru nú kallaðir „flóttamenn“, sem uppfylla ekki skilyrði slíks. Þetta var áberandi í kringum bankahrunið þegar fjölmargir óeirðaseggir voru kallaðir „mótmælendur“, og þannig látið eins og allt sem þeir gerðu væri löglegt og þannig má telja lengi.
Laun eru gjald fyrir vinnu. Bætur eru ekki laun. Það þarf ekki að vera nein skömm að því að vera á bótum, eða þiggja lífeyri. Eldri borgari getur þegið ellilífeyri án þess að hafa neitt til að skammast sín fyrir. Öryrkinn á að geta þegið örorkubætur sínar og borið höfuðið hátt.
Bætur eru eitthvað sem menn fá til að bæta úr einhverju ástandi. Atvinnulaus maður fær atvinnuleysisbætur en ekki atvinnuleysislaun.
Í tillögu Pírata á „að greiða hverjum og einum borgara fjárhæð frá ríkinu óháð atvinnu eða öðrum tekjum“. Það er fráleitt að kalla slíkar greiðslur til fólks „laun“. Rétt eins og það væri fráleitt að kalla þetta „fasteignakaup“.
En óháð því hvaða nafni þessar greiðslur væru nefndar, þá væru þær óeðlilegar. Ríkið er rekið fyrir skattfé sem er tekið af fólki með valdi. Í því felst, telji menn borgarann vera frjálsan mann en ekki eign hins opinbera, að slíkt á að vera undantekning en ekki regla og aðeins fyrir því sem er nauðsynlegt. Að greiða öllum fasta fjárhæð, óháð atvinnu hans eða öðrum tekjum, er ekki nauðsyn sem réttlætir skattheimtu af venjulegu fólki.
Það er merkilegt að margt fólk, sem telur sig vilja minnka hlut ríkisins yfir einstaklingnum, skuli á sama tíma styðja þá sem vilja setja hvern einasta mann á „borgaralaun“ úr ríkissjóði. „Laun“ sem greidd skuli út af skattfé.