Vefþjóðviljinn 149. tbl. 20. árg.
Eitt af því sem alþingismenn ættu ekki að gera er að nota – eða öllu heldur misnota – aðstöðu sína til að veitast að fólki út í bæ. Sérstaklega á þetta við um fólk sem annar hluti ríkisvaldsins, dómsvaldið, hefur haft afskipti af. Já einmitt, þrígreining ríkisvalds.
Í Vikulokunum Ríkisútvarpsins í morgun sagði Katrín Júlíusdóttir varaformaður Samfylkingarinnar í endursögn mbl.is:
Þarna eru einstaklingar sem við vitum að brutu gegn samfélaginu og hefur verið refsað. Þeir hafa fengið miklar afskriftir og eru með eignir í skattaskjólum, en eru svo að dingla sér í þyrlunni sinni á meðan við hin erum með bílana okkar á bílalánum.
Hér er Katrín að vísa til þess að maður sem hlaut þunga refsingu komst í fréttirnar eftir að þyrla sem hann var farþegi í brotlenti.
Ekkert annað hefur komið fram en að maðurinn hafi afplánað refsivist sína eftir þeim reglum sem gilda almennt í landinu og settar eru af þingmönnum, þar á meðal Katrínu Júlíusdóttur.
Refsingar eru heldur ekki þyngdar þótt óviðkomandi hafi tekið lán til að kaupa bíl og sé að greiða af því eftir þeim skilmálum sem hann gekk fús að. Refsingar eru vonandi ekki heldur þyngdar af því að almenningsálitið sé svona og svona. Og þaðan af síður ráðast dómar af því hvort menn ferðast um á einkareiðhjóli eða almenningsþyrlu.
Réttvísin er blind.